Erlent

Clinton og Trump í hár saman á Twitter vegna kvenfjandsamlegra ummæla Trump

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Repúblikaninn Donald Trump og Demókratinn Hillary Clinton í fyrstu sjónvarpskappræðum þeirra af þremur.
Repúblikaninn Donald Trump og Demókratinn Hillary Clinton í fyrstu sjónvarpskappræðum þeirra af þremur. Nordicphotos/AFP
Nýjasta vígstöð forsetakosninganna í Bandaríkjunum er á samfélagsmiðlinum Twitter eftir að Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrata, hjólaði í Donald Trump, forsetaefni Repúblikana, eftir að sá síðarnefndi lét fegurðardrottningu og fyrrverandi Ungfrú Bandaríkin heyra það á Twitter.

Í röð tísta í nótt hvatti Trump almenning til þess að kanna fortíð Aliciu Machado sem lýsti því á dögunum hversu illa Trump hafði farið með sig eftir að hún vann keppnina um Ungfrú alheim árið 1996 en þá átti Trump keppnina. Sagði hún að Trump hefði ítrekað skammað sig fyrir að bæta á sig kílóum. Clinton greip þetta á lofti og hefur nýtt sér yfirlýsingar Machado í kosningabaráttunni.

Trump virðist ekki hafa verið sáttur með þetta og lét Clinton heyra það á samfélagsmiðlum líkt og sjá má í tístunum hér að neðan.

Nokkrum tímum síðar svaraði Clinton og sagði ljóst að Trump hefði gengið af göflunum. Sagði hún að það væri fáránlegt að forsetaframbjóðandi skyldi vaka fram eftir til þess eins að ljúga upp á saklausa konu. Benti hún á að Trump væri svo óstöðugur að það þyrfti afar lítið til þess að láta hann algjörlega missa sig líkt og Clinton segir að hann hafi gert í nótt.

Sagði hún að eina gildi kvenna í huga Trump væri útlit þeirra og að stefna hans og orðræða sýndu bersýnilega að hann bæri enga virðingu fyrir konum.

Machado sjálf sagði í yfirlýsingu eftir að tístin hans Trump fóru í loftið að tístin væru ekkert nema árásir ætlaðar til þess að draga úr trúverðugleika sínum. Trump virðist þó ekki hafa verið brugðið og þurfti að sjálfsögðu að eiga síðasta orðið.

Hillary Clinton hefur aukið forskot sitt í könnunum eftir fyrstu kappræður frambjóðenda í vikunni. Í aðdraganda þeirra var mjög farið að draga saman á milli þeirra í könnunm en samkvæmt sérstöku reiknilíkani vefsíðunnar FiveThirtyEight eru sigurlíkur Clinton taldar 67 prósent, upp um 13 prósentustig á örfáum dögum.


Tengdar fréttir

Clinton hafði betur í átakalitlum kappræðum

Trump stærði sig af því að hafa grætt á efnahagshruninu og sagði það klókindamerki að hafa komið sér undan því að greiða skatta. Enn er óljóst hvort kappræðurnar muni hafa áhrif á fylgistölur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×