Erlent

Clinton eykur bilið milli sín og Trump

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Clinton og Trump bítast um Hvíta húsið.
Clinton og Trump bítast um Hvíta húsið. Vísir/AFP
Hillary Clinton, forsetaefni Demókrata, eykur enn á forskot sitt á keppinaut sinn Donald Trump, frambjóðanda Repúblikana. Í nýjum skoðanakönnunum sem birtar voru í gær er Clinton með allt að fimmtán prósenta forskot á Trump.

Í könnun sem framkvæmd var af McClatchy-Marist mældist Clinton með 48 prósent fylgi en Trump aðeins 33 prósent en könnunin var framkvæmd um það leyti sem Trump deildi opinberlega við foreldra stríðshetjurnar Humayun Khan sem lést í Írak 2004. Í síðustu könnun McClatchy-Marist var Clinton aðeins með þriggja prósentustiga forskot.

Clinton leiðir með níu prósentustigum í sameiginlegri könnun NBC News og Wall Street Journal, 47 prósent gegn 38 prósentum, og bætir þar við sig fjórum prósentustigum frá síðustu könnun NBC og WSJ sem framkvæmd var í upphafi síðasta mánaðar.

Sjá einnigClinton á hraðri uppleið í könnunum

Athygli vekur að Clinton bætir verulega við sig þegar fylgi á meðal karla er einungis skoðað í könnun NBC og WSJ. Þar bætir hún við sig 22 prósentustigum og leiðir Trump með átta prósentustigum. Clinton nýtur einnig áfram yfirgnæfandi stuðnings meðal kvenna í könnunni.

Búist var við að Clinton myndi bæta við sig fylgi eftir alla athyglina sem hún fékk á landsþingi Demókrataflokksins í síðustu viku. Þessar fylgissveiflur í kjölfar flokksþinganna eru vel þekktar í bandarískum stjórnmálum. Þær eiga til að jafnast út þegar frá líður, en þetta árið virðist uppsveifla Clinton verða stærri en uppsveifla Trump.

Á vefsíðu Huffington Post má finna samantekt yfir þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum vegna forsetakosninganna sem haldnar verða í nóvember. Þar má sjá að Clinton leiðir með 47 prósenta fylgi gegn 39,7 fylgi Trump. Líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur skilið töluvert á milli frambjóðendanna tveggja á undanförnum dögum.


Tengdar fréttir

Trump segir Obama hreina hörmung

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, segir valdatíð Baracks Obama Bandaríkjaforseta hafa verið hreina hörmung og í raun versta forseta í sögu Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×