Enski boltinn

Clement: Gylfi sagði að hann vildi fara eftir síðasta tímabil

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paul Clement og Gylfi fallast í faðma eftir góðan sigur.
Paul Clement og Gylfi fallast í faðma eftir góðan sigur. vísir/getty
Paul Clement, knattspyrnustjóri Swansea City, segir að Gylfi Þór Sigurðsson hafi óskað eftir því að yfirgefa velska félagið eftir síðasta tímabil.

Félagaskipti Gylfa frá Swansea til Everton gengu loks í gegn í vikunni eftir langan aðdraganda. Clement segir að hann hafi reynt að sannfæra Gylfa um að vera áfram hjá Swansea en íslenski landsliðsmaðurinn hafi verið ákveðinn í að reyna fyrir sér hjá öðru félagi.

„Ég gerði Gylfa það ljóst undir lok síðasta tímabils og í sumar að ég vildi halda honum. Hann leit svo á að hann þyrfti nýja áskorun,“ sagði Clement sem tók við Swansea í afar erfiðri stöðu um mitt síðasta tímabil en náði að halda liðinu uppi í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég vissi að hann vildi fara. Við áttum hreinskiptin samtöl og ég vonaðist til að honum myndi snúast hugur.“

Vandræðalegra fyrir hann en mig

Talsverða athygli vakti þegar Gylfi fór ekki með Swansea í æfingaferð til Bandaríkjanna fyrr í sumar.

„Ég sagði Gylfa að ég væri á því að hann ætti að koma með til Bandaríkjanna. Viðræðurnar hefðu getað siglt í strand. Hann var sannfærður um að svo yrði ekki. Þetta tók lengri tíma en við hefðum viljað en stundum er þetta flókið,“ sagði Clement.

Þrátt fyrir að hafa ekki farið með til Bandaríkjanna æfði Gylfi með Swansea eftir að liðið kom aftur heim til Wales.

„Þetta var sennilega vandræðalegra fyrir hann en mig. Hann hélt áfram að æfa með okkur og lagði einna harðast að sér, jafnvel á þessum tíma,“ sagði Clement.


Tengdar fréttir

Gylfi Þór og saga dýrasta Íslendingsins

Níu forverar Gylfa Þórs Sigurðssonar sem dýrasta knattspyrnumanns Íslands eru langt frá því að ná samanlagt upp í kaupverð Everton á Gylfa. Eiður Smári Guðjohnsen hafði verið sá dýrasti í sautján ár.

Réttur tímapunktur fyrir Gylfa til að fara í Everton

Gylfi Þór Sigurðsson er kominn til enska úrvalsdeildarliðsins Everton og þjóðin bíður spennt eftir því að sjá hvernig honum farnast þar. Bjarni Guðjónsson efast ekki um að Gylfi eigi eftir að pluma sig vel og hann sé tilbúinn að axla




Fleiri fréttir

Sjá meira


×