Enski boltinn

Cissokho: Lacazette getur spilað fyrir Arsenal og Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lacazette er eftirsóttur af stórliðum í Evrópu.
Lacazette er eftirsóttur af stórliðum í Evrópu. vísir/afp
Cissokho hefur mikla trú á landa sínum, Lacazette.vísir/getty
Frakkinn Aly Cissokho, leikmaður Aston Villa, segir að landi sinn, Alexandre Lacazette, geti slegið í gegn í ensku úrvalsdeildinni.

Lacazette, sem leikur með Lyon, hefur farið mikinn í frönsku úrvalsdeildinni í vetur og frammistaða hans hefur ekki farið framhjá stórliðum í Evrópu. Hann hefur m.a. verið orðaður við Liverpool og Arsenal.

Cissokho, sem lék sem lánsmaður með Liverpool á síðustu leiktíð, þekkir vel til Lacazette, en þeir voru samherjar hjá Lyon á árunum 2009-2012.

„Þetta er frábært, ég er glaður fyrir hans hönd. Þegar ég var hjá Lyon kom hann úr varaliðinu og æfði með aðalliðinu og þú sást að það bjó ýmislegt í honum,“ sagði Cissokho um Lacazette sem hefur skorað 17 mörk í 19 deildarleikjum með Lyon í vetur.

„Hann lagði sig allan fram á hverri æfingu. Sjálfstraustið jókst hjá honum og hann vann sér sæti í aðalliðinu. Hann er að sýna hvað í honum býr. Hann býr yfir miklum hæfileikum og getur orðið betri í framtíðinni,“ sagði Cissokho og bætti við:

„Hann er ungur og það er mikil samkeppni um stöður hjá félögum eins og Arsenal og Liverpool og það er líka erfitt að yfirgefa heimahagana.

„Þetta verður áskorun, en hann þarf ákveða hvort hann sé tilbúinn fyrir hana. Við sjáum hvað gerist í sumar, en hann hefur hæfileikana til að spila fyrir félög af þessari stærðargráðu.“

Lyon situr í öðru sæti frönsku deildarinnar með 39 stig, tveimur stigum á eftir Marseille.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×