Enski boltinn

Chris Smalling betri en miðverðir Leicester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Smalling vinnur skallaeinvígi á móti Jamie Vardy hjá Leicester.
Chris Smalling vinnur skallaeinvígi á móti Jamie Vardy hjá Leicester. Vísir/Getty
Chris Smalling, miðvörður Manchester United, hefur blómstrað undir stjórn Hollendingsins Louis van Gaal sem hefur sett mikla ábyrgð á herðar hans.

Chris Smalling var á dögunum valinn besti leikmaður Manchester United á tímabilinu af öðrum leikmönnum liðsins en hann hefur spilað meira en 50 leiki fyrir United á tímabilinu.

Chris Smalling hefur verið fyrirliði Manchester United þegar Wayne Rooney og Daley Blind hafa ekki verið með og hann er skiljanlega mjög ánægður með Louis van Gaal.

„Nú þarf ég bara að borga honum til baka," sagði Chris Smalling í viðtali við Sky Sports og aðspurður um það traust sem hollenski knattspyrnustjórinn hefur sýnt honum í vetur.

 „Hann setur mikla ábyrgð á leikmennina og gefur okkur taktísk fyrirmæli ásamt hinum þjálfurunum. Þú færð þetta traust frá honum og þú veist að þú ert að fara að spila," sagði Smalling.

„Hann er líka duglegur að setja sig fram fyrir liðið og það tekur pressu af okkur leikmönnunum. Það er vissulega pressa á okkur en hann er duglegur að skýla okkur fyrir henni því hann veit að við þurfum að vera með einbeitinguna á leiknum," sagði Chris Smalling.

Það hefur verið mikið rætt og skrifað um frammistöðu þeirra Wes Morgan og Robert Huth í miðri vörn Englandsmeistara Leicester City en Chris Smalling hefur þó gert betur en þeir báðir.

Manchester United liðið hefur nefnilega haldið hreinu í sextán leikjum með Chris Smalling í miðri vörninni sem er það mesta hjá miðverði í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Leicester-miðverðirnir Wes Morgan og Robert Huth koma í öðru sæti einum leik á eftir.

Oftast haldið hreinu á tímabilinu af miðvörðum ensku úrvalsdeildarinnar:

16 - Chris Smalling, Manchester United

15 - Wes Morgan, Leicester City

15 - Robert Huth, Leicester City

14 - Laurent Koscielny, Arsenal

13 - Toby Alderweireld, Tottenham




Fleiri fréttir

Sjá meira


×