Körfubolti

Chris Paul verður ekki með í Ríó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Paul.
Chris Paul. Vísir/Getty
Chris Paul ætlar ekki að gefa kost á sér í bandaríska körfuboltalandsliðið á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst en hann gaf þetta út í viðtali við Sports Illustrated.

Chris Paul er þegar búinn að vinna tvö Ólympíugull á ferlinum en hann var með bandaríska sigurliðinu á ÓL í Peking 2008 og ÓL í London 2012.

„Ég finn að skrokkurinn minn er að segja mér að ég þurfi á þessum frítíma að halda," sagði Chris Paul í viðtalinu við Sports Illustrated. Hann verður 31 árs í maí og er á sínu ellefta tímabili í NBA-deildinni.  

Þetta er það eina sem Chris Paul hefur unnið á ferlinum því ekki hefur hann verið nálægt að spila um NBA-meistaratitilinn og bandaríska landsliðið varð í þriðja sæti með hann innanborðs á HM 2006.

Chris Paul er að spila vel með Los Angeles Clippers á þessu tímabili en hann er með 19,8 stig og 9.9 stoðsendingar að meðaltali í leik.  Hann hefur ekki áhyggjur af því að fjarvera sín hafi slæm áhrif á bandaríska landsliðið.

„Liðið er með Steph (Curry) og alla þessa stráka. Ég held að Kyle Lowry yrði frábær fyrir liðið," sagði Chris Paul en Kyle Lowry er þó ekki í stóra hópnum. Þar eru aftur á móti bakverðirnir Steph Curry, Russell Westbrook, Mike Conley, John Wall, Kyrie Irving og Damian Lillard.

Paul hefur fjórum sinnum verið með flestar stoðsendingar í leik á tímabili og hefur fjórum sinnum verið valinn í úrvalslið tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×