Körfubolti

Chicago gefst upp á Derrick Rose

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Meiðsli hafa hægt verulega á Derrick Rose.
Meiðsli hafa hægt verulega á Derrick Rose. vísir/epa
Chicago Bulls skipti leikstjórnandanum Derrick Rose til New York Knicks í gær.

Í staðinn fékk Chicago miðherjann Robin Lopez og bakverðina José Calderón og Jerian Grant.

Rose kom eins og stormsveipur inn í NBA-deildina og var valinn verðmætasti leikmaður hennar á sínu þriðja tímabili (2010-11). Það sama tímabil komst Chicago í úrslit Austurdeildarinnar í fyrsta skipti síðan á dögum Michaels Jordan og Phils Jackson.

Erfið meiðsli hægðu hins vegar verulega á Rose og hann hefur aðeins spilað 166 af 328 leikjum Chicago í deildarkeppni undanfarin fjögur tímabil.

Rose, sem er 27 ára, náði þó að spila 66 leiki á síðasta tímabili og skoraði þá 16,4 stig að meðaltali í leik og gaf 4,7 stoðsendingar.

Þrátt fyrir það ákváðu forráðamenn Chicago að skipta honum til New York sem hefur vantað leikstjórnanda undanfarin ár.

„Þetta er spennandi dagur fyrir New York og stuðningsmenn liðsins,“ sagði Jeff Hornacek, þjálfari New York, um nýja leikmanninn.

„Derrick er einn af fremstu leikstjórnendum NBA-deildarinnar og hefur reynslu af úrslitakeppninni. Hann kemur með nýja vídd inn í leikmannahóp okkar.“

Hjá New York hittir Rose fyrir stórstjörnuna Carmelo Anthony og litháíska ungstirnið Kristpas Porzingis.

New York vann aðeins 32 leiki á síðasta tímabili og var býsna langt frá því að komast í úrslitakeppnina.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×