Enski boltinn

Chelsea vann í mögnuðum leik á Goodison

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Chelsea fagna marki Diego Costa.
Leikmenn Chelsea fagna marki Diego Costa. Vísir/Getty
Það var frábær knattspyrnuleikur á Goodison Park í dag þegar Chelsea heimsótti Everton í síðasta leik dagsins í enska boltanum. Chelsea vann 6-3 í mögnuðum leik.

Chelsea byrjaði af krafti og það var ekki liðin ein mínúta þegar Diego Costa var búinn að koma gestunum frá Lundúnum yfir. Innan við mínútu síðar voru gestirnir búnir að tvöfalda forystu sína og þar var að verki Branislav Ivanovic sem þó var líklegast rangstæður.

Aldeilis frábær byrjun á þessum síðdegisleik í enska boltanum og það átti eftir að koma meira fjör í hann. Tim Howard greip boltann með höndum fyrir utan teig, en slökum dómara leiksins Jon Moss lét sér fátt um finnast og dæmdi ekkert.

Everton minnkaði muninn rétt fyrir hálfleik eða á 45. mínútu með marki frá Belganum Kevin Mirallas, en þetta var þriðja markið í jafnmörgum leikjum sem Everton skorar á 45. mínútu.

Everton var mun meira með boltann í síðari hálfleik án þess að skapa sér afgerandi færi. Chelsea kom sér svo í kjörstöðu rúmum tuttugu mínútum fyrir leikslok þegar Eden Hazard labbaði þá framhjá James McCarthy. Hann gaf svo boltann fyrir markið, boltinn hafði viðkomu í Seamus Coleman og í netið.

Þeir bláklæddu frá Bítlaborginni verða seint sakaðir um að gefast upp og þeir minnkuðu muninn strax í næstu sókn. Aiden McGeady átti þá frábæra sendingu á Steven Naismith sem minnkaði muninn í 2-3. Frábær leikur á Goodison.

Nemanja Matic var næstur á dagskrá. Hann fékk að tía boltann upp fyrir utan teiginn og þakkaði pent fyrir sig með því að þruma boltanum í hornið. Þá var stundarfjórðungur eftir og leiknum var alls ekki lokið.

Samuel Eto'o minnkaði muninn fyrir Everton gegn sínu gamla félagi með laglegum skalla, en Ramires gerði út um leikinn þrettán mínútum fyrir leikslok með fimmta marki Chelsea. Diego Costa var ekki hættur og bætti hann við sjötta marki Chelsea, 3-6. Mögnuðum leik lokið á Goodison!

Chelsea liðið lítur afskaplega vel út í byrjun leiks, en þeir eru með fullt hús stiga eða níu stig eftir þrjár umferðir. Byrjunin er hins vegar erfiðari hjá Everton, en þeir eru einungis með tvö stig eftir þrjá leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×