Enski boltinn

Chelsea-liðið sem Eiður spilaði með fyrir tíu árum betra en meistararnir í ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári, Arjen Robben og Roman Abramovic fagna Englandsmeistaratitlinum 2005.
Eiður Smári, Arjen Robben og Roman Abramovic fagna Englandsmeistaratitlinum 2005. vísir/getty
Chelsea varð Englandsmeistari í fimmta sinn í gær þegar liðið lagði Crystal Palace, 1-0, á Stamford Bridge. Ekkert lið getur náð lærisveinum José Mourinho þrátt fyrir að þrjár umferðir séu eftir.

„Það er enginn vafi um að Chelsea er verðskuldaður meistari. Liðið hefur frábæra einstaklinga og José Mourinho hefur breytt þessu í alvöru lið,“ skrifar Jamie Redknapp, sparkspekingur Sky Sports, í pistli á vefsíðu Daily Mail.

„Þið getið gleymt því að tala um Chelsea-liðið sem leiðinlegt lið. Það eina leiðinlega við Chelsea er að ekkert lið gat skákað því.“

„Ef önnur lið hefðu spilað betur hefði kannski verið meiri pressa á Chelsea, en þess í stað náði liðið að kreista fram þau úrslit sem það þurfti,“ segir Redknapp.

Eiður Smári skoraði tólf mörk fyrir tíu árum þegar Chelsea varð meistari.vísir/getty
Tíu ár eru síðan José Mourinho gerði Chelsea fyrst að Englandsmeisturum, en Lundúnaliðið valtaði þá yfir deildina með meiri yfirburðum en nú.

Chelsea vann deildina þá með 95 stig, en liðið skoraði 72 mörk og fékk aðeins á sig 15 mörk í 38 leikjum.

„Þrátt fyrir að Chelsea vinni síðustu þrjá leiki sína nær það ekki sama stigafjölda og þá. Það gæti skorað fleiri mörk en er ekki nálægt því að vera jafn gott varnarlið,“ segir Redknapp.

„Það lið var eins og vél með Petr Cech, John Terry Ricardo Carvalho, William Gallas og Claude Makélélé. Sá síðastnefndi var svo góður að staða á vellinum var skírð eftir honum. Grunnurinn í þessu liði var traustur.“

Eiður Smári Guðjohnsen var í umræddu Chelsea-liði, en hann skoraði tólf mörk í 37 leikjum þetta tímabil.

„Fram á við var Chelsea með Damien Duff og Arjen Robben fljúgandi fram og aftur kantinn með Frank Lampard að styðja við Didier Drogba eða Eið Guðjohsnen í framlínunni. Svona gat Chelsea keyrt yfir lið,“ segir Redknapp.

„Chelsea-liðið í dag hefur verið frábært á köflum og á meira inni, en mér finnst 2005-liðið betra,“ segir Jamie Redknapp.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×