Erlent

Chelsea Clinton kynnti móður sína á svið eftir hjartnæma ræðu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Mæðgurnar, Chelsea og Hillary Clinton, fögnuðu saman í gær.
Mæðgurnar, Chelsea og Hillary Clinton, fögnuðu saman í gær.
Chelsea Clinton, dóttir þeirra Hillary og Bill Clinton, lagði ríka áherslu á að kynna mýkri og hlýrri hlið móður sinnar á lokadegi flokksþings demókrata þegar hún kynnti móður sína á svið í nótt. Hillary Clinton tók formlega við útnefningu Demókrataflokksins í gær. 

Clinton yngri sagðist afar stolt af móður sinni og lýsti henni sem dásamlegri móður og ömmu.

„Hún hefur alltaf, alltaf verið til staðar fyrir mig, sama hvað hefur komið upp í mínu lífi,“ sagði Chelsea. Hún sagði foreldra sína alltaf hafa staðið við bakið á henni og kennt henni mikilvæg gildi í lífinu. „Þessi tilfinning, að finna fyrir því að maður sé elskaður og að maður sé metinn að verðleikum, það er tilfinning sem mamma vill að öll börn upplifi. Það er köllun hennar í lífinu.“

Hún sagði fólk gjarnan spyrja hvernig móðir hennar gæti haldið áfram, jafnvel þegar á móti blæs í hinu mikla umróti sem fylgir lífi í stjórnmálum. „Svarið er: Það er vegna þess að hún gleymir aldrei fyrir hvern hún er að berjast.“

Chelsea nefndi ýmis afrek móður sinnar í starfi, til að mynda baráttu hennar fyrir kvenréttindum þegar hún var forsetafrú og síðar þegar hún varð utanríkisráðherra. „Kvenréttindi eru mannréttindi,“ sagði Chelsea og vitnaði í orð móður sinnar. En árið 1995 hélt Hillary Clinton, þá forsetafrú, ræðu á fjórða heimsfundi Sameinuðu þjóðanna um kvenréttindi sem bar heitið; Kvenréttindi eru mannréttindi.

„Í nóvember kýs ég konu sem er fyrirmyndin mín sem móðir og baráttumaður,“ sagði Chelsea í lokaorðum ræðu sinnar.

„Konu sem hefur varið öllu lífi sínu í að vinna fyrir börn og fjölskyldur.“

Að lokum kynnti hún á svið móður sína, hetjuna sína og „okkar næsta forseta, Hillary Clinton.“

Ræðuna má sjá í heild hér að neðan auk þess sem birt var stutt myndband af æviskeiði forsetaframbjóðandans.  


Tengdar fréttir

Segir Demókrata ljúga um sig

Hann virtist mjög reiður yfir því sem sagt var um hann og sagðist langa að ráðast á ræðumennina.

Obama bjartsýnni en nokkru sinni fyrr

Fjögurra daga landsþingi bandaríska Demókrataflokksins lauk í nótt með ræðu Hillary Clinton, sem verður forsetaefni í kosningunum í nóvember. Í vikunni hafa flokksleiðtogar og þekktir demókratar keppst um að hlaða á hana lofi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×