Fótbolti

Chapecoense liðið fær Copa Sudamericana meistaratitilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsfólk Chapecoense minnist leikmanna liðsins.
Stuðningsfólk Chapecoense minnist leikmanna liðsins. Vísir/Getty
Chapecoense, sem missti nær allt liðið sitt í flugslysi á leið í stærsta leik félagsins, hefur fengið smá sárabót á þessum erfiðustu tímum í sögu félagsins.

Knattspyrnusamband Suður-Ameríku hefur ákveðið að Chapecoense fái Copa Sudamericana titilinn sem leikmenn félagsins voru að fara að berjast um við kólumbíska liðið Atletico Nacional.  BBC segir frá.

19 af 22 leikmönnum liðsins dóu í flugslysinu auk fjölda starfsmanna liðsins en aðeins þrír leikmenn Chapecoense lifðu af.

Forráðamenn kólumbíska liðsins Atletico Nacional höfðu áður lagt það til að Chapecoense yrði úrskurðaður meistari í keppninni en ekkert varð af úrslitaleik félagsins vegna flugslysins.

Atletico Nacional félagið fær um leið sérstök háttvísiverðlaun fyrir framgöngu sína á þessum erfiðu tímum. Kólumbíumennirnir fá háttvísiverðlaunin fyrir friðarhugsun, skiling og háttvísi.

Chapecoense fær tvær milljónir dollara í verðlaun en Atletico Nacional fær eina milljón dollara.

Félög víðsvegar að úr heiminum minntust fórnarlamba flugslysins um helgina og mínútuþögn verður fyrir alla leikina í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni í þessari viku.

Eiður Smári Guðjohnsen er einn þeirra sem hefur boðið fram þjónustu sína ef Chapecoense vantar leikmenn til að spila þá leiki sem eru framundan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×