Enski boltinn

Cech fékk hjálminn fyrir tíu árum: „Þúsund sinnum verra fyrir konuna mína“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Petr Cech liggur eftir samstuðið fyrir tíu árum.
Petr Cech liggur eftir samstuðið fyrir tíu árum. vísir/afp
Petr Cech, markvörður Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, er einn albesti markvörður í sögu deildarinnar. Hann hefur spilað í úrvalsdeildinni síðan 2004 með Chelsea og Arsenal og unnið hana fjórum sinnum.

Cech er sá markvörður sem oftast hefur haldið hreinu í úrvalsdeildinni en það hefur hann gert alls 182 sinnum í 376 leikjum sem er met. Næstur á listanum er David James sem hélt 169 sinnum hreinu í 572 leikjum.

Það eru tíu ár í þessari viku síðan ferli Cech var nærri lokið á örlagaríku kvöld í leik með Chelsea gegn Reading þegar Stephen Hunt, leikmaður Reading, setti hnéð í höfuð markvarðarins þegar þeir lentu í samstuði.

Cech var lengi frá og hefur spilað með varnarhjálm allar götur síðan. Óvíst var hvort hann gæti spilað fótbolta aftur en það hefur nú heldur betur ræst úr ferli þessa frábæra Tékka.

„Þetta hefði getað farið á annan veg,“ segir Cech í ítarlegu viðtali við Sky Sports er hann rifjar upp þetta svakalega kvöld.

„Læknarnir reyndu að hræða mig ekki of mikið og ég spurði ekki margra spurninga. En ef þið spyrjið konuna mína þá heyrið þið aðra sögu. Fyrir henni var þetta þúsund sinnum verra. Það mátti ekki miklu muna,“ segir Petr Cech.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×