Bíó og sjónvarp

Casey Affleck tjáir sig um ásakanir um kynferðislega áreitni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Casey Affleck á Óskarsverðlaununum um helgina.
Casey Affleck á Óskarsverðlaununum um helgina. vísir/getty
Leikarinn Casey Affleck sem vann verðlaun fyrir besta leikinn í karlhlutverki á Óskarsverðlaununum á sunnudag tjáði sig í vikunni við bandaríska dagblaðið Boston Globe um ásakanir tveggja kvenna á hendur honum en árið 2010 sögðu þær Affleck hafa áreitt sig kynferðislega þegar þær unnu við myndina I‘m Still Here.

Vísir fjallaði ítarlega um málið í morgun. Í haust, og nú aftur í kjölfar Óskarsverðlaunanna, hafa ýmsir fjölmiðlar vestanhafs rifjað ásakanir kvennanna upp en þær kærðu Affleck á sínum tíma fyrir áreitnina. Málið kom þó aldrei til kasta dómstóla þar sem leikarinn samdi við konurnar utan dómsalsins.

Í upptaktinum fyrir Óskarsverðlaunin vildi Affleck lítið tjá sig um ásakanirnar en nú, eftir að hann hefur hreppt styttuna eftirsóttu, segir hann að öllum aðilum sé bannað að tjá sig um málið samkvæmt samkomulaginu sem gert var.

Margir hafa lýst yfir óánægju sinni á samfélagsmiðlum með að hann skuli hafa hlotið verðlaunin en Affleck segir að enginn af þessu fólki sem sé svona ósátt við hann viti hvað gerðist í raun og veru.

„Ég trúi því að öll ill meðferð á fólki, sama hvers vegna hún er, sé óásættanleg og viðbjóðsleg, og að allir eigi skilið að það sé komið fram við þá af virðingu á vinnustaðnum og rauninni hvar sem er. Það er ekki mikið sem ég get gert í þessu annað en að lifa mínu lífi eins og ég veit að ég lifi því og að segja frá mínum gildum og reyna að lifa eftir þeim.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×