Fótbolti

Carvajal meiddur og Bellerín bíður spenntur

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Dani Carvajal gengur meiddur af velli í Mílanó.
Dani Carvajal gengur meiddur af velli í Mílanó. vísir/getty
Dani Carvajal, hægri bakvörður Real Madrid og spænska landsliðsins, missir líklega af Evrópumótinu í fótbolta vegna meiðsla.

Carvajal fór af velli meiddur í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á laugardaginn þegar Real Madrid vann Atlético Madrid í vítaspyrnukeppni.

Hann gekkst undir læknisskoðun í Madríd í dag þar sem kom í ljós að hann er meiddur á mjöðm en það tekur leikmenn vanalega um mánuð að jafna sig af meiðslum af þeirri tegund sem Carvajal varð fyrir.

Carvajal er annar leikmaður Real Madrid sem verður fyrir slæmum meiðslum á versta tíma en franski miðvörðurinn Raphaël Varane missti af úrslitaleiknum og missir einnig af Evrópumótinu vegna meiðsla.

Evrópumótið hefst eftir tólf daga þannig afar ólíklegt þykir að bakvörðurinn fari með spænska landsliðinu í titilvörnina til Frakklands þar sem það er í riðli með Tékklandi, Tyrklandi og Króatíu.

Vicente del Bosque, landsliðsþjálfari Spánar, þarf að tilkynna spænska hópinn í síðasta lagi á morgun en hann sagði eftir 3-1 sigur Spánar gegn Bosníu að Hector Bellerín, bakvörður Arsenal, taki stöðu Carvajal komist Madrídingurinn ekki með.

Spánn spilar fyrsta leik sinn á EM 13. júní gegn Tékklandi, degi áður en strákarnir okkar mæta Portúgal í St. Étienne.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×