Enski boltinn

Carragher svarar því af hverju Dyche fær ekki starf hjá stóru liði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sean Dyche hefur náð frábærum árangri með Burnley á undanförnum árum.
Sean Dyche hefur náð frábærum árangri með Burnley á undanförnum árum. vísir/getty
Jamie Carragher segir að Everton eigi að gera allt til að klófesta Sean Dyche, knattspyrnustjóra Burnley. Gamla Liverpool-hetjan telur þó að leikstíll Dyche komi í veg fyrir að hann fái starf hjá stóru félagi.

Dyche er einn þeirra sem hefur verið orðaður við stjórastarfið hjá Everton. En stjórnarmenn félagsins virðast nú hafa beint athygli sinni að Marco Silva, stjóra Watford.

„Ég held að enginn stjóri í heiminum gæti komið Burnley hærra, miðað við það sem þeir eru búnir að eyða. Þeir eru meðal sjö efstu liða deildarinnar,“ sagði Carragher í þættinum Monday Night Football á Sky Sports í gær.

„Hann hefur unnið ótrúlegt starf. Ég er ekki að gagnrýna leikstíl hans en það er engin spurning að þessi merkimiði [að spila beinskeyttan fótbolta] fælir stóru liðin frá, sama hversu góður árangurinn er. Everton ætti að gera allt til að reyna að fá hann en eru ekki að því.“

Carragher bendir á að Brendan Rodgers og Roberto Martínez hafi fengið starf hjá Liverpool og Everton vegna leikstílsins sem þeir predika.

„Ef þú berð þessa þrjá stjóra sama er enginn munur. Sigurhlutfallið er það sama. Svo af hverju fær Dyche ekki þetta starf? Fyrir nýjan stjóra, hvernig heldurðu þér í starfi? Þú þarft að ná í úrslit og þrauka,“ sagði Carragher.

„Þú þarft að ákveða hvernig þú ætlar að gera það og stundum þarftu að vera pragmatískur. En ef þú færð merkimiðann að spila beinskeyttan fótbolta áttu erfitt með að fá starf hjá stóru félögunum. Það er erfitt að ná jafnvægi milli þess að ná í úrslit og forðast að fá þennan merkimiða.“

Burnley hefur unnið þrjá leiki í röð og situr í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.


Tengdar fréttir

Öskubuskuævintýri Burnley er ekki lokið

Gengi Burnley í ensku úrvalsdeildinni í ár er með hreinum ólíkindum. Liðið er í hópi efstu liða deildarinnar sem hafa þegar slitið sig frá liðunum sem eru neðar í töflunni. Það er í raun algjörlega sturlað að Burnley sé með jafnmörg stig og Liverpool og Arsenal. Sem og liðið sé aðeins stigi á eftir Tottenham sem hefur fengið mikið hrós fyrir frábæran leik í vetur.

Fjórðungur liðanna búin að reka stjóra

Þótt aðeins 102 dagar séu síðan flautað var til leiks í ensku úrvalsdeildinni hafa fimm knattspyrnustjórar misst starfið sitt. Fjórðungur liðanna í deildinni hefur því rekið stjóra það sem af er tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×