Enski boltinn

Carragher: Ryan Giggs kemur ekki til greina sem stjóri Everton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs.
Ryan Giggs. Vísir/Getty
Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool og nú knattspyrnuspekingur á Sky Sports, telur að Ryan Giggs eigi enga möguleika á því að verða næsti knattspyrnustjóri Everton.

Fréttir bárust af því í gær að Ryan Giggs hefði áhuga á að taka við liði Gylfa Þórs Sigurðssonar sem leitar nú að nýjum knattspyrnustjóra eftir að Ronald Koeman var rekinn.

Everton hefur byrjað tímabilið skelfilega þrátt fyrir að eyða stórum upphæðum í nýja leikmenn eins og einmitt Gylfa okkar.

Ryan Giggs vill ólmur komast að hjá liði ensku úrvalsdeildinni og það kemur því líka til greina hjá honum að fara til Leicester.

Carragher grínaðist reyndar með það á Twitter að Everton ætti að leyfa Ryan Giggs að fá tækifæri fram á vor en í viðtali á Sky Sports er aðeins annað hljóð í honum.

„Ég held að Ryan Giggs komu ekki til greina sem næsti stjóri Everton og þetta segi ég með fullri virðingu. Hann vill komast í knattspyrnustjórastöðu sem er hið besta mál. Hann fékk flottan skóla þegar hann spilaði fyrir frábæra stjóra hjá Manchester United en ég held bara að hann komi bara ekki til greina að þessu sinni,“ sagði Jamie Carragher við Sky Sports.

Jamie Carragher telur að Sean Dyche, stjóri Burnley, sé mun líklegri kostur. „Hann er að vinna frábært starf með Burnley. Everton liðið er í fallsæti og þarf að þétta vörnina. Sean Dyche kann það,“ sagði Carragher.

„Þetta yrði stórt skref fyrir hann en sem stjóri viltu alltaf reyna að komast hærra. Ég sé af hverju hann er ofarlega á þessum lista,“ sagði Carragher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×