Enski boltinn

Carragher: Martröð fyrir Sakho sem gerði sér og Liverpool mikinn óleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mamadou Sakho gæti verið á leið í bann.
Mamadou Sakho gæti verið á leið í bann. vísir/getty
Mamadou Sakho, miðvörður Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, svarar í dag fyrir meint lyfjamisferli sitt en ólöglegt efni fannst í lyfsýni hans á dögunum.

Lyfjaeftirlit UEFA er að rannsaka þetta lyfjamisferli sem tengist brennsluefni sem fannst í sýni Sakho eftir Evrópudeildarleik gegn Manchester United í síðasta mánuði.

Franski miðvörðurinn var hvorki settur í bann af UEFA né Liverpool en spilaði samt ekki leikinn gegn Newcastle um helgina. Hann mun að öllum líkindum biðja um B-sýni en hann þarf nú að bíða eftir svörum frá UEFA um hvort hann eigi yfir höfði sér keppnisbann.

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool, er vægast sagt ósáttur með Frakkann sem hefur spilað frábærlega fyrir lærisveina Jürgen Klopp að undanförnu.

„Þetta er martröð fyrir leikmanninn. Hann er að gera sér og félaginu mikinn óleik því hann var að verða virkilega mikilvægur leikmaður. Það eru margar alvarlega spurningar sem hann þarf að svara,“ segir Carragher í viðtali við Sky Sports.

„Hann hefur átt gott tíambil og er einn af leiðtogum liðsins núna. Maður horfir bara til leikjanna gegn Dortmund og Manchester United. Það er erfitt að sjá hvernig Liverpool ætlar að fylla skarð hans.“

„En fyrir atvinnumann í fótbolta eða atvinnumann í hvaða íþrótt sem er þá er þetta ekki ásættanlegt,“ segir Jamie Carragher.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×