Enski boltinn

Carragher: Karius er ekki nógu góður fyrir Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Loris Karius átti slakan leik í marki Liverpool þegar liðið tapaði 4-3 fyrir Bournemouth í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í gær.

Karius hefur fengið mikla gagnrýni fyrir frammistöðu sína og meðal þeirra sem hafa baunað á þýska markvörðinn er Jamie Carragher, sparkspekingur á Sky Sports og fyrrverandi leikmaður Liverpool.

„Hann hefur ekki enn sannfært mig um að hann sé nógu góður,“ sagði Carragher sem vill meina að Karius hefði átt sök á öðru og fjórða marki Bournemouth. Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan.

„Hann hefur bara byrjað átta leiki, og hver veit hvað hann gerir á næstu 2-3 árum, en hann þarf að bæta sig gríðarlega mikið. Hann hefur ekki gert neitt til að hrífa mig í þessum leikjum,“ bætti Carragher við.

Klopp hughreystir Karius eftir leikinn á Dean Court í gær.vísir/getty
Karius var keyptur frá Mainz 05 fyrir tímabilið og tók aðalmarkvarðarstöðuna af Simon Mignolet. Carragher segir að það sé engin lausn að setja Mignolet aftur í markið, hann sé ekki heldur nógu góður.

„Það er engin tilviljum að Liverpool hefur brotnað niður á undanförnum 2-3 árum þegar liðið er sett undir pressu. Ég hef sagt það áður að Simon Mignolet er ekki nógu góður,“ sagði Carragher.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kom Karius til varnar eftir leikinn í gær.

„Ég hef ekki neinar áhyggjur. Ef þú gerir mistök ertu gagnrýndur. Ég er viss um að Jamie Carragher fékk sinn skerf af gagnrýni á ferlinum. Síðasta markið segir ekkert um hann [Karius] sem markvörð. Svona lagað gerist,“ sagði Klopp um landa sinn.


Tengdar fréttir

Klopp: Verðskuldaður sigur hjá Bournemouth

Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var hreinskilinn er hann sagði sigur Bounemouth hafa verið verðskuldaðan eftir að lærisveinar hans köstuðu frá sér tveggja marka forskoti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×