Enski boltinn

Carragher: Erum að búa til krakka en ekki karlmenn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Knattspyrnusérðfræðingarnir í Englandi hafa keppst við að greina vanda enska fótboltalandsliðsins eftir að liðið lét litla Ísland slá sig út úr sextán liða úrslitum Evrópumótsins í Frakklandi.

Einn af þeim er Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool, sem lék á sínum tíma 38 leiki fyrir enska landsliðið og meira en 500 leiki í ensku úrvalsdeildinni.

Jamie Carragher skrifaði pistil um enska liðið í Daily Mail þar sem hann talar um leikmennina sem „Akademíukynslóðina."

„Það er farið með þá í fótboltaskóla, þeir æfa á fullkomnum völlum, spila í besta búnaðinum alla daga og allt er gert til þess að þeir þurfi bara að einbeita sér að fótboltanum. Við höldum að við séum að gera þá að karlmönnum en við erum í raun að búa til krakka," skrifaði Jamie Carragher.

Enska landsliðið hefur ekki unnið leik í útsláttarkeppni á stórmóti í heilan áratug. Liðið hefur farið sannfærandi í gegnum undankeppnir mótanna en allt fer síðan í baklás á stóra sviðinu.

Enska landsliðið hefur ekki unnið titil síðan að liðið varð heimsmeistari 1966 eða fyrir hálfri öld. Liðið komst síðast í undanúrslit á stórmóti fyrir tuttugu árum eða á EM 1996.

Jamie Carragher sagði einnig sína skoðun á því hver eigi að taka við enska landsliðinu af Roy Hodgson. Carragher vill að Þjóðverjinn Jürgen Klinsmann taki við enska liðinu.


Tengdar fréttir

Eiginkona Rooney brjáluð út í The Sun

Coleen Rooney, eiginkona Wayne Rooney, fyrirliða enska landsliðsins, var langt frá því að vera sátt með forsíðu breska dagblaðsins The Sun í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×