Enski boltinn

Carragher: Engir karlmenn og engir leiðtogar í Liverpool-liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Carragher og Steven Gerrard, núverandi fyrirliði Liverpool.
Jamie Carragher og Steven Gerrard, núverandi fyrirliði Liverpool. Vísir/Getty
Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool-liðsins gagnrýndi liðið harðlega eftir 3-1 tapið á móti Crystal Palace í gær en Liverpool-liðið hefur nú aðeins náð í eitt stig út úr síðustu fjórum deildarleikjum sínum.

„Liðin eru ekki að vinna Liverpool á meiri hæfileikum. Liverpool-liðið er að láta kúga sig inn á vellinum. Mótherjarnir vinna á meiri ákafa og eldmóði," sagði Jamie Carragher.

„Þetta er meira en bara léleg byrjun. Það er eitthvað að. Það versta sem þú sem stuðningsmaður sérð er þegar liðið þitt er lint inn á vellinum. Það var þannig í þessum leik og það er ekki í fyrsta sinn því svona er þetta búið að vera allt tímabilið," sagði Carragher.

„Það er enginn leiðtogi innan liðsins og þannig var það í lok síðasta tímabils sem kostaði Liverpool titilinn. Þeir fengu á sig 50 mörk á síðasta tímabili og það hefur ekki lagast þótt að félagið hafi eytt miklu í leikmenn. Ég, sem stuðningsmaður Liverpool, hef nú miklar áhyggjur," sagði Jamie Carragher.

„Það eru engir karlmenn í liðinu og það er ekki nógu gott skipulag. Þú getur ekki alltaf spilað vel og Liverpool hefur afar sjaldan ef það er nokkurn tímann unnið leik síðustu misseri þar sem liðið hefur spilað illa," sagði Carragher.

„Á síðasta ári kom liðið á Selhurst Park og var bæði andlega og líkamlega veikt. Nú var sama sagan og ekkert hefur breyst. Það er búið að eyða 120 milljónum punda og Luis Suarez er farinn. Hvað með það? Liðið er enn andlega veikt og leiðtogalaust," sagði Jamie Carragher.


Tengdar fréttir

Brendan Rodgers: Ég veit vel að ég þarf að fara vinna leiki

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, tók fulla ábyrgð á tapi liðsins á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í gær en Liverpool, sem komst í 1-0 í leiknum, tapaði leiknum 3-1 og er þar með búið að tapa þremur deildarleikjum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×