Körfubolti

Carmelo Anthony fær að spila í Stjörnuleiknum á sunnudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carmelo Anthony og LeBron James.
Carmelo Anthony og LeBron James. Vísir/AP
Carmelo Anthony hjá New York Knicks verður í liði Austurdeildarinnar í Stjörnuleik NBA-deildarinnar í körfubolta sem fer fram í New Orleans á sunnudagskvöldið.

Leikurinn verður sem fyrr í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en þar koma bestu leikmenn NBA-deildarinnar saman.

Anthony var ekki upphaflega valinn í liðið en hann kemur nú inn fyrir Kevin Love hjá Cleveland Cavaliers sem er meiddur.

Það er Adam Silver, yfirmaður NBA-deildarinnar, sem velur þá leikmenn sem koma inn ef um meiðsli eru að ræða hjá leikmönnum sem valdir voru í leikinn með hefðbundnum hætti í kosningu almennings eða af þjálfurum.

Adam Silver lét Carmelo Anthony vita fyrir leikinn í nótt og Melo skoraði 19 stig í fyrsta leikhlutanum þar sem hann hitti úr 7 af 8 skotum sínum.  Hann endaði leikinn með 30 stig en New York liðið tapaði fyrir Russell Westbrook og félögum í Oklahoma City Thunder.

Þetta verður í tíunda skiptið á ferlinum sem Carmelo Anthony er valinn í Stjörnuleikinn.



Carmelo Anthony er með 23,4 stig, 6,1 frákast og 2,9 stoðsendingar að meðaltali í NBA-deildinni í vetur.

Hugsanleg skipti á honum og öðrum toppleikmanni hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu og þá hefur nafn Kevin Love verið upp á borðinu.

Carmelo Anthony sjálfur býst þó við því að klára tímabilið sem leikmaður New York Knicks.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×