Fótbolti

Carli Lloyd skoraði þrennu í úrslitaleiknum og var valin best

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carli Lloyd  með gullknöttinn sinn.
Carli Lloyd með gullknöttinn sinn. Vísir/Getty
Hin bandríska Carli Lloyd var kosin besti leikmaður HM kvenna í Kanada en þessi snjalli miðjumaður fékk afhentan gullknöttinn eftir 5-2 sigur á Japan í úrslitaleiknum þar sem hún skoraði þrennu.

Það kom engum á óvart að Carli Lloyd fengi þessi verðlaun því hún kom sterklega til greina fyrir úrslitaleikinn þar sem hún síðan skoraði fyrstu þrennuna sem hefur verið skoruð í úrslitaleik HM kvenna frá upphafi.

Lloyd skoraði eitt mark í 16 liða úrslitunum í 2-0 sigri á Kólumbíu, eina markið í 1-0 sigri á Kína í átta liða úrslitunum og og fyrra markið í 2-0 sigri í undanúrslitunum á móti Þýskalandi þar sem hún lagði einnig upp seinna markið.

Carli Lloyd er 32 ára gömul og spilar með Houston Dash í bandarísku deildinni. Hún hefur spilað með bandaríska landsliðinu frá 2005 og fékk brons á HM 2007 og silfur á HM 2011. Lloyd hefur einnig unnið tvö Ólympíugull með bandaríska landsliðinu 2008 og 2012.

Carli Lloyd skoraði öll sex mörkin sín í útsláttarkeppninni og fékk auk gullknöttsins sem besti leikmaðurinn einnig silfurskóinn sem annar markahæsti leikmaður heimsmeistaramótsins. Lloyd skoraði jafnmörg mörk og hin þýska Célia Sasic en lagði upp færri mörk.

Franski leikmaðurinn Amandine Henry fékk silfurknöttinn sem annar besti leikmaður mótsins og hin japanska Aya Miyama fékk bronsknöttinn sem þriðji besti leikmaður mótsins.

 

Hin þýska Célia Sasic fékk gullskóinn sem markahæsti leikmaður mótsins og landa hennar Anja Mittag fékk bronsskóinn.

Hope Solo, markvörður bandaríska heimsmeistaraliðsins, var kosin besti markvörður mótsins og hin kanadíska Kadeisha Buchanan var valin besti ungi leikmaður mótsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×