Enski boltinn

Cardiff og Stoke skildu jöfn

Vísir/Getty
Cardiff nældi í eitt stig í 1-1 jafntefli gegn Stoke á heimavelli Cardiff í dag. Cardiff er tveimur stigum frá sautjánda sæti þegar þrjár umferðir eru eftir.

Aron Einar Gunnarsson var á varamannabekk Cardiff í dag og kom ekki við sögu í leiknum.

Mörkin komu bæði af vítapunktinum. Marko Arnautovic kom Stoke yfir eftir að brotið var á Peter Odemwingie í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Peter Whittingham svaraði fyrir Cardiff af vítapunktinum þegar fimm mínútur voru búnar af seinni hálfleik eftir að Fraizer Campbell var klipptur niður í vítateignum.

Ole Gunnar Solskjaer, knattspyrnustjóri Cardiff reyndi að henda sóknarsinnuðum leikmönnum inná en það voru gestirnir úr Stoke sem fengu færin. Jon Walters komst næst því að skora sigurmarkið undir lok leiksins en skot hans endaði í markslánni.

Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki og skildu liðin því jöfn. Stoke siglir lygnan sjó um miðja deild þegar þrjár umferðir eru eftir en Cardiff þarf einfaldlega að fara að sigra leiki ætli þeir sér að halda sæti sínu í deild þeirra bestu á næsta tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×