Erlent

Cameron vill að þingið samþykki hernað

Guðsteinn Bjarnason skrifar
David Cameron gerði grein fyrir áformum sínum á þingi í gær.
David Cameron gerði grein fyrir áformum sínum á þingi í gær. Fréttablaðið/EPA

Forsætisráðherra Bretlands hvetur breska þingið til að fallast á loftárásir á vígasveitir ­Íslamska ríkisins í Sýrlandi. „Ef ekki nú, hvenær þá?“ spurði David Cameron forsætisráðherra í ávarpi sínu á þingi í gær. Cameron segir engan vafa leika á því að Daish-samtökin svonefndu, sem kalla sig Íslamska ríkið, séu hættuleg íbúum Bretlands, auk þess sem þau ógni lífi milljóna manna í Írak, Sýrlandi og Líbíu. „Því lengur sem Íslamska ríkið fær að dafna í Sýrlandi, því meiri verður hættan sem stafar af því,“ segir í minnisblaði um hugsanlegar aðgerðir gegn Íslamska ríkinu, bæði pólitískar og hernaðarlegar, sem Cameron birti áður en hann ávarpaði þingið.

„Það væri rangt af Bretlandi að fela öðrum löndum öryggi okkar eins og þau væru undirverktakar, og búast við því að flugmenn annarra þjóða beri álagið og áhættuna af því að ráðast á Íslamska ríkið í Sýrlandi til að koma í veg fyrir hryðjuverk hér í Bretlandi,“ segir í minnisblaðinu. Almennt virtust þingmenn taka nokkuð vel í þessar hugmyndir Camerons, en spurðu þó sumir hvernig Cameron hafi hugsað sér að leiða þennan hernað til lykta.

Ný skoðanakönnun frá breska markaðsrannsóknafyrirtækinu YouGov sýnir að verulegur stuðningur er á meðal Breta um hernaðaraðgerðir í Sýrlandi. Þannig eru 59 prósent Breta fylgjandi loftárásum, en aðeins 20 prósent andvíg. Og 41 prósent er fylgjandi en 34 prósent andvíg því að breskir og bandarískir hermenn verði sendir til Sýrlands að berjast við vígamenn Íslamska ríkisins í landhernaði í Sýrlandi. Loks eru 39 prósent fylgjandi því en 34 prósent andvíg að breskir og bandarískir hermenn verði sendir aftur til Íraks til að berjast við vígasveitirnar þar.

François Hollande Frakklandsforseti hefur átt fundi með leiðtogum Bandaríkjanna, Rússlands, Bretlands og Þýskalands til að safna liði, og fengið góðar undirtektir. Breskar herþotur hafa reyndar nú þegar verið notaðar í meira en eitt ár til að varpa sprengjum á vígasveitir Íslamska ríkisins í Sýrlandi. Bandaríkin, Frakkland og nú síðast Rússland hafa sömuleiðis gert fjöldann allan af loftárásum á vígasveitirnar, sem hafa hreiðrað um sig á stórum svæðum í Sýrlandi og Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×