Erlent

Cameron mun gefa allt í baráttuna fyrir áframhaldandi aðild Bretlands að ESB

Atli Ísleifsson skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, ræddi við fréttamenn í Brussel fyrr í kvöld.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, ræddi við fréttamenn í Brussel fyrr í kvöld. Vísir/AFP
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segist ætla að leggja allt í baráttuna fyrir áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu.

Cameron ræddi við blaðamenn að loknum kvöldverðarfundi leiðtoga aðildarríkjanna í Brussel í kvöld þar sem hann sagðist munu vinna náið með aðildarríkjum ESB að því að tryggja aukið öryggi í Bretlandi.

Þá lagði hann áherslu á að bresk fyrirtæki myndu áfram eiga aðgang að innri markaði ESB, verði Bretland áfram aðili að sambandinu.

Öflugra innan breytts ESB

Forsætisráðherrann sagði að Bretland yrði öflugra innan breytts Evrópusambands og útlistaði hann nokkur þau atriði sem í samningnum felast. Samningurinn verður til umræðu þegar breska ríkisstjórnin kemur saman á morgun og svo á breska þinginu eftir helgi.

Cameron fagnaði samningnum og sagði hann tryggja að Bretland þurfi ekki að leggja fram fé til að bjarga evruríkjum í fjárhagsvanda, að breskum fyrirtækjum verði ekki mismunað þó Bretland standi utan evrusamstarfsins, að samningurinn veiti Bretlandi aukin völd til að stöðva glæpamenn frá því að koma inn í landið og veiti Bretlandsstjórn svokallaðan „neyðarhemil“ varðandi réttindi farandverkafólks til sjö ára. Þá sé Bretland undanskilið því að unnið skuli að sífellt nánara sambandi (e. ever closer union) aðildarríkja.

Óljóst um tímasetningu þjóðaratkvæðagreiðslu

Cameron neitaði að svara þegar hann var spurður hvort að þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Bretlands í ESB verði haldin þann 23. júní. Ítrekaði hann að hann muni kynna ríkisstjórn sinni samninginn á morgun áður en tilkynnt verður um tímasetningu varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Cameron hafði áður heitið því að atkvæðagreiðslan fari fram fyrir árslok 2017, en nú má ljóst þykja að hún verði haldin löngu áður en sé frestur rennur út.

Klofinn flokkur

Dómsmálaráðherrann Michael Gove greindi frá því fyrr í kvöld að hann myndi berjast fyrir útgöngu Bretlands úr sambandinu.

Cameron, sem sjálfur hefur sagst styðja áframhaldandi en breytta aðild Bretlands að sambandinu, sagðist vonsvikinn en þó ekki hissa að Gove, sem hann lýsti sem einum af sínum nánustu og elstu vinum, hafi ákveðið að berjast gegn aðild Bretlands.

Ljóst væri að baráttan um hvort Bretland eigi að segja skilið við sambandið muni ekki stjórnast af flokkslínum.

David Cameron Outlines EU Deal

Watch: David Cameron outlines the UK's new "historic" agreement with Europe

Posted by Sky News on Friday, 19 February 2016

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×