Erlent

Cameron hittir leiðtoga aðildarríkja ESB

Atli Ísleifsson skrifar
David Cameron og Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands.
David Cameron og Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands. Vísir/AFP
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hyggst funda með leiðtogum aðildarríkja Evrópusambandsins á næstu vikum þar sem hann mun greina frá því að Bretland muni segja skilið við sambandið, verði ekki gerðar breytingar á aðild ESB og Bretlands.

Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands, sagði forsætisráðherrann bjartsýnn á að ná fram verulegum breytingum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fyrirhuguð er fyrir árslok 2017.

Cameron hét því á síðasta kjörtímabili að kosið yrði um framtíð aðildar Bretlands að ESB, ynni Íhaldsflokkurinn sigur í þingkosningunum sem fram fóru fyrir þremur vikum. Íhaldsflokkurinn vann hreinan meirihluta á þinginu.

Í frétt BBC kemur fram að Cameron útiloki ekki að kosið verði á næsta ári, gangi viðræður vel, en það sem mestu skipti sé að „gera hlutina rétt“.

Cameron heimsækir nú bæði leiðtoga Hollands og Frakklands í fyrstu ferð sinni að tryggja breytingunum stuðning.

Hann hefur þó enn ekki útlistað nákvæmlega hvaða breytingar hann vilji sjá á ESB-aðild Bretlands, en fullvíst er talið að þær munu að hluta snúast um hertar reglur varðandi straum innflytjenda til Bretlands.


Tengdar fréttir

Kosningar um aðildina að ESB

Bretadrottning flutti í gær stefnuræðu Camerons. Meðal helstu mála má nefna þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB, aukin völd til Skotlands, Wales og Norður-Írlands og auknar heimildir leyniþjónustunnar til að fylgjast með farsímanotkun fólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×