Lífið

Cameron grét þegar hann heyrði Titanic-tónlist Horners

Birgir Olgeirsson skrifar
James Horner og James Cameron störfuðu saman að þremur myndum, Aliens, Titanic og Avatar.
James Horner og James Cameron störfuðu saman að þremur myndum, Aliens, Titanic og Avatar. Vísir/Getty
Margir hafa minnst bandaríska kvikmyndatónskáldsins James Horner eftir að hann fórst í flugslysi í gær. Þeirra á meðal er leikstjórinn James Cameron en Horner samdi kvikmyndatónlist fyrir myndirnar Aliens, Titanic og Avatar, sem Cameron leikstýrði.

Cameron segir samstarf þeirra hafa byrjað brösuglega en Horner hafði tvíbókað sig þegar kom að því að semja tónlist fyrir Aliens á níunda áratug síðustu aldar. Horner kláraði verkið á einum og hálfum degi og þurfti Cameron og teymi hans að klippa tónlistina við myndina.

Leikstjórinn vildi þó vinna aftur með Horner og fékk hann til liðs við sig fyrir kvikmyndina Titanic og gekk það ögn betur í það skiptið. Horner hlaut tvenn Óskarsverðlaun, fyrir bestu kvikmyndatónlistina og fyrir besta frumsamda lagið fyrir kvikmynd, en lagið MyHeartWillGoOn varð eitt það vinsælasta á tíunda áratug síðustu aldar.

Cameron var svo hrifin af tónlist Horners fyrir myndina að hann sagðist hafa tárast þegar hann heyrði hana í fyrsta skiptið.

Leikstjórinn segir síðustu minningu sína um Horner Titanic-tengda en í apríl síðastliðnum lék sinfóníusveit Royal Albert Hall tónlistina úr Titanic í heild sinni á meðan myndin var sýnd. „Það var tilfinningaþrungin stund og ég er glaður að hún sé síðasta minningin mín um James. Þeir þurftu að texta myndina því talið heyrðist ekki fyrir sveitinni. Ég hugsaði með mér að svona hefði James hugsað sér myndina.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×