Lífið

Cameron Diaz brjáluð út í þáttastjórnanda í Ástralíu

Drew Barrymore og Cameron Diaz
Drew Barrymore og Cameron Diaz Vísir/Getty
Cameron Diaz skellti á í útvarpsviðtali við Kyle & Jackie O Show á útvarpsstöðinni KIIS 106.5 í vikunni eftir að annar þáttastjórnandanna, Kyle, gerði grín að fíknivanda vinkonu hennar, leikkonunnar Drew Barrymore.

Diaz og meðleikari hennar í myndinni Sex Tape, Jason Segel, voru saman í viðtali í útvarpsþættinum þegar Jackie O minntist á að Giselle Eisenberg, barnastjarnan sem leikur dóttur þeirra í myndinni, minnti hana á Barrymore í kvikmyndinni klassísku, E.T., frá árinu 1982.

„Það er rétt, svona þegar þú nefnir það. Og hún er jafn lífleg og klár og Drew. Hún er ótrúlega góð stelpa,“ sagði Diaz um Eisenberg.

„Vonum bara að hún sleppi því samt að dópa eins og Drew Barrymore. Það er gaman að vera utanaðkomandi og fylgjast með svoleiðis, en ég ímynda mér að það sé ekki gaman að vera sá sem er sjálfur í ruglinu,“ svaraði hinn þáttastjórnandinn Kyle Sandilands.

Diaz var ekki skemmt eftir að Kyle lét ummælin falla.

„Ég er viss um, Kyle, að þú hafir aldrei prófað eiturlyf, er það nokkuð? Eða gert tilraunir með áfengi og annað? Alltaf gert allt rétt? Til hamingju með það.“

Kyle reyndi þá að skipta um umræðuefni og ræða nýjan kærasta Diaz, Benji Madden. Eftir vandræðalega þögn reyndi hinn þáttastjórnandinn, Jackie O, enn að breyta um umræðuefni og hóf að tala um þyngdartap Jasons Segel, en Diaz var ekki skemmt.

„Við þurfum að fara. Afsakið það. Það er verið að reka á eftir okkur.“

Eftir að þau skelltu á, viðurkenndi Jackie O að hlutirnir hefðu ekki farið eftir áætlun.

„Jæja, þetta byrjaði mjög vel og endaði mjög illa, held ég. Vel gert, Kyle. Þú eyðilagðir þetta viðtal. Þú afsakar ef þér finnst ég of hreinskilin, en þú fórst að tala um fíknivanda bestu vinkonu hennar... Hún er besta vinkona hennar. Og svo Benji. Það vita allir hversu prívat Cameron Diaz er um einkalíf sitt.“

Sandilands lét eins og ekkert væri. 

„Kannski hefðu þau bara átt að kaupa auglýsingar ef þau vildu selja myndina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×