Erlent

Cameron boðar til viðbragðsæfingar vegna hryðjuverkaárása í London

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
David Cameron forsætisráðherra Bretlands segir að æfingin muni auka viðbragðshæfni ef kemur til hryðjuverkaárásar.
David Cameron forsætisráðherra Bretlands segir að æfingin muni auka viðbragðshæfni ef kemur til hryðjuverkaárásar. Vísir/EPA
Öryggissveitir Bretlands munu á næstu tveimur dögum fara í viðbragðsæfingu við hryðjuverkaárásum í London. Þetta tilkynnti forsætisráðherra landsins David Cameron í dag á breska þinginu.

Cameron sagði í tilkynningunni að þessi þjálfun eða æfing myndi tryggja það að Bretland gæti tekist á við hryðjuverkaárás. Æfingin kemur í kjölfar árásar á strandhótel  í Túnis á föstudag en þar myrti íslamskur öfgamaður að minnsta kosti átján Breta. Forsætisráðherrann sagði þessa tölu eiga eftir að hækka þar sem enn á eftir að nafngreina nokkra sem létust vegna þess að fórnarlömbin voru í strandfötum og ekki með skilríki sín á sér. Alls 38 manns létust í árásinni. Viðbragðsæfingin hafði þó verið skipulögð fyrir nokkrum mánuðum eftir árásina á ritstjórn skopmyndatímaritsins Charlie Hebdo í París.

Æfingin á að athuga og endurbæta viðbragðsáætlun Bretlands ef kæmi til alvarlegrar hryðjuverkaárásar. Samkvæmt umræðum í þinginu verða borgarbúar varir við æfinguna en Cameron sagði þó að hún myndi ekki hafa áhrif á daglegt líf þeirra að nokkru leyti.

Sjaldan er þögn í breska þinginu en í dag þögðu þingmenn í mínútu til þess að minnast fórnarlamba árásarinnar.


Tengdar fréttir

Varar við frekari árásum

Forsætisráðherra Frakklands segir einungis tímaspursmál hvenær önnur árás verður gerð þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×