Enski boltinn

Cahill tryggði Chelsea sigur á Liverpool í Kaliforníu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gary Cahill fagnar marki sínu í nótt.
Gary Cahill fagnar marki sínu í nótt. vísir/getty
Chelsea vann Liverpool, 1-0, í uppgjöri ensku úrvalsdeildarliðanna í International Champions Cup-æfingamótinu í nótt en leikurinn fór fram í Rósarskálinni í Kaliforníu.

Gary Cahill, miðvörður Chelsea, kom Lundúnarliðinu yfir snemma leiks og það reyndist eina markið sem var skorað í nótt á þessum sögufræga velli sem hýsti úrslitaleik Brasilíu og Ítalíu á HM 1994.

Chelsea spilaði manni færri síðustu 20 mínútur leiksins eftir að Cesc Fábregas fékk rautt spjald. Robert Firmino kom boltanum í netið fyrir Liverpool en var dæmdur rangstæður.

Þetta er fyrsta tap Jürgens Klopps og lærisveina hans á undirbúningstímabilinu og fyrsta markið sem Liverpool fær á sig í sumar í fimm leikjum.

Liverpool var búið að vinna Tranmere, Fleetwood, Wigan og Huddersfield án þess að fá á sig mark en markatalan í fyrstu fjórum leikjunum er 10-0.

Ragnar Klavan, nýr miðvörður Liverpool, spilaði sinn fyrsta leik fyrir liðið í nótt og kom í veg fyrir annað mark Chelsea þegar hann kom stórhættulegri fyrirgjöf Willian frá markinu á síðustu stundu.

Liverpool mætir næst AC Milan á laugardaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×