Enski boltinn

Cahill: N'Golo er búinn að vera frábær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Cahill, miðvörður Chelsea, var að sjálfsögðu himinlifandi eftir að hann og félagar hans tryggðu sér sæti í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar í kvöld. Chelsea vann þá 1-0 sigur á fráfarandi bikarmeisturum Manchester United.

„Við héldum áfram okkar skriði. Við stóðum okkur nokkuð vel. Þetta var fagmannlega gert hjá okkur og við stjórnuðum leiknum þegar við þurftum þess,“ sagði Gary Cahill við BBC eftir leikinn.

Chelsea var manni fleiri frá 35. mínútu eftir að Ander Herrera fékk sitt annað gula spjald fyrir brot á Eden Hazard.

„Rauða spjaldið hjálpaði okkur. Ég hef ekki séð það þannig að ég er ekki viss. Það voru samt brot í aðdraganda þess svo að það var ekki gáfulegt að fara í svona tæklingu. Við vorum að kvarta af því að okkur fannst þeir vera með skotmark á Eden,“ sagði Gary Cahill.

Franski miðjumaðurinn N'Golo Kante skoraði sigurmarkið í kvöld en hann er nú ekki þekktur fyrir að skora. Kante er engu að síður einn mikilvægasti leikmaður liðsins og enn mikilvægari þegar hann skorar líka.

„N'Golo [Kante] er búinn að vera frábær. Það sáu allir hvað hann gerði á síðasta tímabili en hann hefur tekið annað skref á þessu tímabili. Hann er svo rosalega mikilvægur og þá sérstaklega fyrir okkur í vörninni,“ sagði Gary Cahill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×