Lífið

Byrjar daginn á tattúi

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Ég fékk bítlaæði 1978 og svo pönk- og nýbylgjuæði í framhaldinu,“ segir Gunnar Lárus Hjálmarsson.
„Ég fékk bítlaæði 1978 og svo pönk- og nýbylgjuæði í framhaldinu,“ segir Gunnar Lárus Hjálmarsson. Vísir/Pjetur
 „Ég er nú ekkert með það á heilanum hvað ég er gamall. Enda lítið merkilegt að verða fimmtugur. Maður má bara þakka fyrir að hafa ekki verið uppi fyrir 1.000 árum og vera dauður löngu fyrir þann aldur úr einhverju rugli,“ segir Gunnar Lárus Hjálmarsson, þekktur sem doktor Gunni.

Hann ætlar að byrja daginn á að fá sér tattú í fyrsta skipti. Telur sig nógu þroskaðan í slíkt. Það verða þrjár kúlur í brauðformi á öðrum hvorum handleggnum. Mikill ísmaður? „Já, þetta er það sem fjölskyldan er dálítið í – að fá sér ís. Það er skemmtilegt og lítið karlmannlegt. Maður vill vera sem minnst karlmannlegur enda er karlmennskan að leggja heiminn í rúst. Það gerir apaeðlið.“

Gunni segir afmælispartíið hafa verið haldið um síðustu helgi.

„Konan varð fertug og vinir okkar á efri hæðinni líka svo það var haldið 170 ára afmæli. En ég verð að spila í dag, á afmælinu, í Lucky Records við Rauðarárstíg klukkan fimm. Þangað eru allir velkomnir,“ segir doktorinn sem var að gefa út plötu sem heitir Doktor Gunni í sjoppu.  50 eintök komu út á vínyl og búið að selja þau öll númeruð og áletruð.

Gunni ólst upp í Kópavogi og bjó í sama húsi 22 fyrstu árin. Flutti svo í borgina 1988. Skyldi hafa verið tónlistariðkun á æskuheimilinu? „Nei, nákvæmlega engin, mín er algerlega sjálfsprottin enda finnst mér alltaf dálítið feik þegar krakkarnir fara að gera það sama og foreldrarnir. Það kom reyndar plötuspilari á heimilið 1976 og nokkrar plötur með.  Ég fékk bítlaæði 1978, svo pönk- og nýbylgjuæði í framhaldinu og hef verið í þessum pælingum síðan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×