Innlent

Býr einn á eyju í Þjórsá og þarf að leggja töluvert á sig til að koma sínu atkvæði til skila

Birgir Olgeirsson skrifar
Hákon Kjalar Hjördísarson í Traustsholtshólma.
Hákon Kjalar Hjördísarson í Traustsholtshólma. Vísir
Kjósendur á Íslandi þurfa að leggja mismikið á sig til að komast á kjörstað. Hákon Kjalar Hjördísarson er einn af þeim sem þarf að hafa töluvert fyrir því. Hann býr ásamt hundinum sínum Skugga á eyjunni Traustholtshólma sem er rétt fyrir ofan mynni Þjórsár.

Til að komast á kjörstað þarf Hákon að labba yfir eyjuna, þaðan fer hann í bátinn sinn sem hann siglir yfir Þjórsá. Við bakka Þjórsár bíður bíllinn hans sem hann ekur um tuttugu mínútna leið að félagsheimilinu Félagslundi í Flóahreppi þar sem hann kýs. Félagslundur var áður í gamla Gaulverjahreppi en hann hefur verið sameinaður Flóahreppi.

Hundurinn Skuggi bíður eftir Hákoni í bátnum.Vísir
Vísir heyrði í Hákoni í dag sem segist hafa séð nokkra sem búa í borginni kvarta yfir því að koma sér á kjörstað, og þeir þurfa jafnvel einungis að standa upp úr sófanum fyrir framan sjónvarpið og ganga nokkur skref út í Hagaskóla til að koma atkvæði sínu til skila.

„Það eru forréttindi að búa í lýðræðisríki og alveg sama hvað menn kjósa, þá eiga þeir að nýta réttinn sinn. Þetta er einn dagur á fjögurra ára fresti. Ef menn geta ekki staðið upp og kosið þá þýðir lítið að vera að kvarta yfir ástandinu,“ segir Hákon.

Hákon er þriðji ættliðurinn sem á eyjuna Traustholtshólma en hann flutti sjálfur þangað í vor og hefur í sumar gert þar upp hús og staðið í uppbyggingu á ferðaþjónustu.

Hann ætlar að vera á eyjunni fram í nóvember en fer þá upp á meginlandið til að vinna en fer svo aftur út í Traustholtshólma í apríl næstkomandi og verður yfir sumarið.

Hér má sjá leiðina sem Hákon fer til að kjósa.Vísir/Loftmyndir.is

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×