Innlent

Byltingarkenndur bátur fyrir gæsluna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Össur Kristinsson, stofnandi Rafnars, afhendir Georg Kr. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar, Óðin, sem kemst á mikinn hraða auk þess að vera þægilegur á siglingu.
Össur Kristinsson, stofnandi Rafnars, afhendir Georg Kr. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar, Óðin, sem kemst á mikinn hraða auk þess að vera þægilegur á siglingu. fréttablaðið/vilhelm
Rafnar ehf. afhenti Landhelgisgæslunni nýjan tíu metra strandgæslubát, Óðin, í gær en framkvæmdastjóri Rafnars, Björn Jónsson, segir bátinn byltingarkennda smíði sem marki tímamót á þessu sviði.

Össur Kristinsson, stofnandi Rafnars og Össurar, útskýrði hönnun bátsins fyrir Fréttablaðinu. Hann segir í aðalatriðum tvenns konar bátsskrokka vera til. Annars vegar eru það rúmmálsbátar sem ryðja frá sér vatni þegar siglt er. Þegar þeir gera það myndast bógöldur sem siglt er inn í. Þá myndast sog sem tekur skutinn niður og þá þýðir ekkert að bæta við vélaraflið því skipið nær ekki meiri hraða.

Össur segir hina tegundina vera planandi báta, sem eru léttir og kraftmiklir og skauta á vatninu. Þeir bátar skella hins vegar á öldunum og þykja óþægilegir.

„Þessir bátar, sem við köllum OK Hull, eru í rauninni rúmmálsbátar sem eru á plani þegar þeir leggja af stað. Hins vegar myndast engin bógalda heldur myndast þrýstingur í vatni fyrir framan kjölinn sem er tekinn til baka fyrir aftan kjöl. Þessi bátur, sem er tíu metra rúmmálsbátur, ætti að ferðast á um tíu hnúta hraða en getur farið upp í fjörutíu og gæti enn meira ef hann hefði meira vélarafl,“ segir Össur, en tíu hnúta hraði er um tuttugu kílómetrar á klukkustund.

„Svo er nú annar stór kostur. Báturinn lyftir sér aldrei og lemur eins og planandi bátur heldur sker hann vatnið. Þægindin um borð í bátnum eru allt önnur en í planandi bát,“ bætir Össur við og segir: „Það er ansi mikil upplifun að fara út á þessum bát. Hann er bara ósköp mjúkur í sjó.“

„Báturinn eykur meðal annars stórlega möguleika Landhelgisgæslunnar til öryggis- og löggæslu á grunnslóð. Þá eru kostir bátsins miklir þegar kemur að æfingum með þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar sem og varðskipum og öðrum björgunareiningum,“ segir Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×