Viðskipti innlent

Býður 130 þúsund krónur í Rannsóknarskýrslu Alþingis innbundna í sauðskinn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Virkilega eigulegur gripur.
Virkilega eigulegur gripur. mynd/gallerí fold

Innbundið eintak af Rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008 og tengda atburði er nú til sölu á uppboði sem bókabúðin bókin stendur fyrir. Hæsta boð stendur nú í 130 þúsund krónum en uppboðinu lýkur þann 13. desember næstkomandi.

Að því er fram kemur á vef uppboðsins, sem Gallerí Fold stendur að fyrir hönd Bókarinnar, er rannsóknarskýrslan bundin í þrjár bækur en bandið er skreytt íslensku sauðskinni.

 

„Einnig er vegleag askja, klædd sauðskinni og skreytt með íslenskum krónum. Stórglæsilegt bókbandsverk og ekki spillir innihaldið,“ eins og segir orðrétt í uppboðslýsingunni.

Bókbandsmeistarinn heitir Ragnar Einarsson.

„Hann tók skýrsluna þarna í allsherjaryfirhalningu og bjó bara til listaverk úr henni. Hver bók er bundin í sauðskinn og svo kallar hann þetta Íslendingasögur II – Gleðisögur Mammons,“ segir Ari Gísli Bragason, framkvæmdastjóri Bókarinnar, í samtali við Vísi.

Rannsóknarskýrslan kom út í apríl 2010 í 9 bindum. Ritstjórn skýrslunnar skipuðu þau Páll Hreinsson, Sigríður Benediktsdóttir og Tryggvi Gunnarsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×