Skoðun

Búvörusamningar í nýju ljósi

Ari Teitsson skrifar

Vinna er hafin við nýja búvörusamninga til langs tíma, sem ætlað er að verða mun víðtækari en fyrri samningar og ná til flestra greina landbúnaðarins.

Slíkir samningar hljóta að taka mið af breyttum þörfum og hagsmunum í þjóðfélaginu og því virðist þurfa að endurskilgreina þarfir og markmið búvöruframleiðslu í ljósi breytinga á tekjustreymi og atvinnuháttum vegna fjölgunar ferðamanna.

Ferðaþjónusta er nú talin sú atvinnugrein sem mestu skilar þjóðar­búinu og líkur taldar á að margfalda megi tekjur af henni. Því hlýtur sífellt að þurfa að meta þarfir greinarinnar og styrkja undirstöður hennar eftir föngum.

Í athyglisverðri grein sem Þóroddur Þóroddsson jarðfræðingur ritar í Mýfluguna, staðarblað Mývetninga, segir hann m.a: „Gestur frá Bandaríkjunum hafði á orði hvað það væri notalegt að fara um og sjá að búskapur er enn til staðar við hlið þjónustusvæða fyrir ferðamenn, Vogar og Skútustaðir og sagði það vera grundvallaratriði í sínum huga að svo yrði áfram. Upplifun í ferð um sveitina snerist ekki aðeins um að skoða náttúruperlur heldur einnig um að þar væri eðlilegt mannlíf og óheft búfé á beit sem hægt væri að nálgast, a.m.k. með myndavélinni. „Gætið þess að sveitin verði ekki undirlögð af hótelum, hún á að vera notalegur viðkomustaður gesta.“ Greinina í heild má finna á slóðinni https://www.641.is/wp-content/uploads/2012/08/M%C3%BDflugan-34-tbl-9-sept-2015.pdf.

Augljóst virðist að hluti af þeirri norrænu ásýnd sem laða mun ferðamenn hingað á komandi árum er lífið í landinu, ekki síst sjáanlegur landbúnaður hringinn í kringum landið og holl og hrein íslensk matvæli, gjarnan upprunamerkt sem næst neyslustað. Gangi spár um mögulegar framtíðartekjur af ferðaþjónustu eftir má nokkru kosta til að landið verði áfram eftirsóknarvert fyrir ferðamenn og þá er ef til vill ekki nóg að horfa til aðstöðu á fjölsóttum ferðamannastöðum og umbóta á vegakerfi. Huga þarf að fleiru, jafnvel þróun landbúnaðar. Gæti ekki verið hagkvæmt og skynsamlegt að vernda sem flest íslensk fjölskyldubú og tryggja með því lifandi ásýnd landsins og fjölbreytt matvælaframboð?




Skoðun

Sjá meira


×