Formúla 1

Button: Tek við greiðslum til að keyra Rosberg út úr keppni

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Jenson Button kveður (í bili) í keppninni um helgina.
Jenson Button kveður (í bili) í keppninni um helgina. Vísir/Getty
Jenson Button grínaðist með það í viðtali á dögunum að hann mynd taka við greiðslu frá Lewis Hamilton til að keyra á Nico Rosberg á sunnudag.

Hamilton verður að vinna til að eiga möguleika á að vinna sinn fjórða heimsmeistaratitil. Hann er 12 stigum á eftir Rosberg í heimsmeistarakeppni ökumanna. Það dugar Rosberg að verða þriðji og þá getur Hamilton ekkert gert til að vinna titilinn.

Ef tekið er mið af sterkri stöðu Mercedes-bílsins þá virðist eini möguleiki Hamilton á titilinum vera sá að Rosberg lendi í árekstri eða bilun í keppninni á sunnudag.

„Lewis er mjög ríkur og á nóg af peningum, hann flýgur um heiminn á einkaþotum, svo ég er viss um að hann hefur efni á að borga mér,“ sagði Button í viðtali við GQ Magazine.

„Eini möguleikinn minn á að rekast á Nico á brautinni er þegar hann hringar mig. Ég er opinn fyrir tilboðum og svo er ég að hætta... nei afsakið taka frí,“ bætti Button við.

Lokakeppni tímabilsins fer fram um komandi helgi. Bein útsending frá tímatökunni hefst klukkan 12:50 á laugardag á Stöð 2 Sport 3. Bein útsending frá keppninni hefst svo klukkan 12:30 á sunnudag á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×