Enski boltinn

Burnley leikur í ensku úrvalsdeildinni að ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Burnley höfðu ærna ástæðu til að fagna eftir sigur sinna manna í dag.
Stuðningsmenn Burnley höfðu ærna ástæðu til að fagna eftir sigur sinna manna í dag. Vísir/Getty
Burnley tryggði sér sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir 2-0 sigur á Wigan á heimavelli sínum, Turf Moor.

Ashley Barnes og Michael Kightly skoruðu mörk Burnley í leiknum í dag, en liðið er nú í 2. sæti Championship deildarinnar með 89 stig, átta stigum á undan Derby, sem situr í 3. sæti, þegar aðeins tveimur umferðum er ólokið. Leicester City vermir toppsæti deildarinnar með 93 stig, en liðið hefur þegar tryggt sér þátttökurétt í úrvalsdeildinni að ári.

Burnley lék síðast í úrvalsdeildinni tímabilið 2009-10, en liðið hafnaði þá í 18. sæti og féll aftur niður í Championship deildina.

QPR tryggði sér einnig sæti í umspili um sæti í úrvalsdeildinni á næsta tímabili með 2-1 sigri á Watford í dag. Lærisveinar Harrys Redknapp sitja nú í fjórða sæti með 76 stig, en þar á eftir kemur Wigan með 70 stig, en liðið á leik inni og verður því að teljast ansi líklegt til að komast í umspilið.

Baráttan um sjötta og síðasta sætið í umspilinu er hins vegar mjög hörð. Brighton situr sem stendur í sjötta sætinu með 66 stig, en fast á hæla þeirra koma Nottingham Forest, Ipswich, Reading, Blackburn og Bournemouth.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×