Innlent

Búist við ofsaveðri með morgninum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er vonskuveður framundan í dag.
Það er vonskuveður framundan í dag. Vísir/Vilhelm
Búist er við stormi eða jafnvel ofsaveðri í Skagafirði og Eyjafirði með morgninum með allt að 40 metra á sekúndu meðalvindi og upp í 50 metra í hviðum. Þá er spáð miklum skafrennningi og slæmu skyggni á fjallvegum, einkum um norðvestanvert landið en vind er tekið að lægja í öðrum landshlutum.

Mjög hvasst var um austanvert landið seint í gærkvöldi og fram á nótt. Björgunarsveitir voru kallaðar út á Eskifirði, Reyðarfirði og á Egilsstöðum til að hemja fjúkandi lausamuni og hefta fok af húsum.

Meðal annars fauk hálf byggður sumarbústaður úr stað á Egilsstöðum og einhverjar rúður brotnuðu, en hvergi varð stórtjón, eftir því sem best er vitað. Nú er veður orðið skaplegt þar um slóðir.

Lægðin, sem er að ganga norður af landinu, reyndist dýpri en spár gerðu ráð fyrir og því hefur vindurinn varið hvassari en búist var við.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn:

Suðvestan 20-30 metrar á sekúdnu, hvassast norðan og norðvestan til, en hægari syðst fram á kvöld. Él um landið sunnan- og vestanvert, en léttir til annars staðar. Lægir smám saman um og eftir hádegi, suðvestlæg átt 8-15 metrar á sekúndu seint í dag, en allhvass vindur syðst í kvöld og fram á nótt. Kólnandi veður, frost 0 til 7 stig síðdegis.

Suðlæg eða breytileg átt 5-13 metrar á sekúndu á morgun og áfram él sunnan-og vestanlands, en úrkomulítið fyrir austan. Vaxandi norðlæg átt norðvestan til síðdegis og kólnar annað kvöld.

Færð og aðstæður á vegum:

Það eru hálkublettir og éljagangur á Reykjanesbraut og mjög víða á Reykjanesi.  Hálka er á Sandskeiði og Hellisheiði og hálka eða hálkublettir á vegum á Suðurlandi.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir og snjóþekja á Snæfellsnesi.  Ófært er á Holtavörðuheiði og Fróðárheiði. Verið er að kanna færð á Bröttubrekku og koma nánari upplýsingar fljótlega.

 

Slæmt ferðaveður er víða á Vestfjörðum og eru flestir fjallvegir enn ófærir en þó er orðið fært yfir Gemlufallsheiði. Þar er þó mjög hvasst og blint.

Á Norðurlandi er hálka á flestum vegum og mjög hvasst. Ófært er á Öxnadalsheiði og á Mývatnsöræfum. Flughálka er í Þistilfirði og við Bakkaflóa.

Hálka er á flestum leiðum á Austurlandi en þæfingsfærð í Oddskarði. Enn er ófært á Fjarðarheiði en unnið að hreinsun. Hált er á köflum með suðausturströndinni. 







Fleiri fréttir

Sjá meira


×