Innlent

Búið að skipa í gerðardóm

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Félagsmenn BHM voru í verkfalli í 10 vikur en lög voru sett á það fyrr í þessum mánuði.
Félagsmenn BHM voru í verkfalli í 10 vikur en lög voru sett á það fyrr í þessum mánuði. vísir/pjetur
Hæstiréttur tilnefndi í morgun þau Garðar Garðarsson, hæstaréttarlögmann, Ástu Dís Óladóttur, framkvæmdastjóra, og Stefán Svavarsson, endurskoðanda, í gerðardóm. Atvinnuvegaráðuneytið hefur samþykkt tilnefningu þeirra en Garðar verður formaður dómsins. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Gerðardómur skal fyrir 15. ágúst næstkomandi skera úr um kaup og kjör félagsmanna BHM. Er það í samræmi við lög sem settu voru á verkföll þeirra fyrr í þessum mánuði en verkföllin stóðu í tæpar 10 vikur.

BHM hefur höfðað mál gegn ríkinu vegna laganna sem sett voru á verkföllin og var málið þingfest þann 19. júní síðastliðinn en málflutningur fer fram í byrjun næstu viku.

Að mati BHM felur setning laganna í sér ólögmætt inngrip í starfsemi BHM sem frjáls og lögleg félagasamtök. Lögin brjóti gegn 74. gr. stjórnarskrár Íslands og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem fela í sér almennt bann við afskiptum stjórnvalda og löggjafans.


Tengdar fréttir

Segir forsendur fyrir dómi gerðardóms vera brostnar

Formaður Félags hjúkrunarfræðinga segir þungt hljóð í félagsmönnum. Telur að komið hafi verið í veg fyrir að laun hjúkrunarfræðinga verði ákveðin með dómi. Samningurinn hefur engin áhrif á deilu BHM við ríkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×