Innlent

Búið að handtaka einn vegna brunans í Keflavík

Birgir Olgeirsson skrifar
Búið er að handtaka einn í tengslum við rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum vegna brunans í fjölbýlishúsi við Hafnargötu í Keflavík í nótt. Sá var handtekinn klukkan tvö í dag en lögreglan hefur ekki farið fram á gæsluvarðhald yfir honum. Lögreglan getur haldið viðkomandi í allt að sólarhring án þess að fara fram á gæsluvarðhald. Um er að ræða konu á fertugsaldri.

Grunur leikur á að hugsanlega hafi verið íkveikju að ræða í stigagangi hússins. Hátt í þrjátíu manns búa í húsinu, meðal annars hælisleitendur á vegum Reykjanesbæjar, en átta voru fluttir á slysadeild Landspítalans vegna reykeitrunar.

Lögreglan segir konuna sem grunuð er um íkveikjuna hafa átt í deilum við aðra manneskju. Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir lögregluna hafa útilokað að um hatursglæp hafi verið að ræða.

„Hér er um að ræða fyrrum sambýlinga sem skilja ekki sáttir. Við viljum að öðru leyti ekki tjá okkur um málið.“

Slökkvilið kom á vettvang um klukkan þrjú í nótt og höfðu íbúarnir þá komið sér sjálfir út. Eldurinn logaði annars vegar í þvottavél í sameiginlegu þvottahúsi á einni hæðinni, en hins vegar í fatahrúgu á öðrum stað, sem vekur grunsemdir um íkveikju, en rúður voru farnar að springa vegna hita. Slökkvistarf gekk vel, en reykræsta þurfti allt húsið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×