Viðskipti erlent

Buffett kaupir í Apple í fyrsta sinn

Sæunn Gísladóttir skrifar
Auðjöfurinn Warren Buffett verður 86 ára á árinu.
Auðjöfurinn Warren Buffett verður 86 ára á árinu. vísir/getty
Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffett, fjárfesti í Apple í fyrsta sinn á fyrsta ársfjórðungi ársins. CNN Money greinir frá því að félagið hafi keypt yfir 9,8 milljón hluti í fyrirtækinu á tímabilinu. Hver hlutur kostaði um 109 dollara, jafnvirði 13.440 íslenskra króna.

Því má áætla að fjárfestingin hafi numið 1,1 milljarði dollara, jafnvirði 136 milljarða íslenskra króna. Hlutabréf í Apple hafa hins vegar hrunið að undanförnu eftir að Apple greindi frá niðurstöðu ársfjórðungsuppgjörinu sínu í síðasta mánuði.

Hlutabréf í Apple nema nú í kringum 90 dollurum, 11 þúsund krónum. Hlutabréfin hafa lækkað um 14 prósent á árinu.

Warren Buffett er þekktur sem fjárfestir sem veðjar alltaf á rétt hlutabréf, því eru greiningaraðilar farnir að spyrja sig hvort hlutabréf í Apple séu nú á uppleið á ný. Hlutabréf í Apple hafa hækkað um tvö prósent í morgunviðskiptum eftir að greint var frá því að Buffett hefði fjárfest í félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×