Körfubolti

Budenholzer valin besti þjálfari NBA-deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike Budenholzer.
Mike Budenholzer. Vísir/AFP
Mike Budenholzer, þjálfari Atlanta Hawks, var í dag valinn besti þjálfari NBA-deildarinnar á þessu tímabili en undir hans stjórn náði liðið besta árangrinum í sögu félagsins.

Budenholzer hafði betur í baráttunni við Steve Kerr, þjálfara Golden State Warriors, sem gerði frábæra hluti á sínu fyrsta ári sem þjálfari í deildinni..

Mike Budenholzer fékk 67 atkvæði í fyrsta sætið og samtals 513 stig frá þeim 130 íþróttafréttmönnum sem höfðu atkvæðisrétt að þessu sinni. Steve Kerr fékk 56 atkvæði í fyrsta sætið og alls 471 stig. Jason Kidd, þjálfari Milwaukee Bucks, var síðan þriðji með 57 stig.

Golden State Warriors vann 67 leiki undir stjórn Steve Kerr sem er besti árangur þjálfara á fyrsta ári en liðið vann Vesturdeildina með yfirburðum. Það dugði samt ekki til að vera kosinn þjálfari ársins.

Atlanta Hawks vann 60 af 82 leikjum undir stjórn Mike Budenholzer en þetta var hans annað tímabil með liðinu. Budenholzer var áður aðstoðarmaður Gregg Popovich hjá San Antonio Spurs til fjölda ára. Liðið bætti sig um 22 sigurleiki milli tímabila en Budenholzer hefur gjörbreytt leikstíl liðsins sem áður byggðist langmest á einstaklingsframtaki.

Atlanta Hawks vann Austurdeildina á liðsheild og samvinnu en liðið hefur enga súperstjörnu innan sinna raða. Sex leikmenn liðsins skoruðu yfir tíu stig í leik en enginn þeirra var með meira en 17 stig að meðaltali í leik.

Atlanta Hawks hefur aldrei unnið svona marga leiki á einu tímabili en liðið bætti metin frá 1986-87 og 1993-94 um þrjá sigurleiki. Þetta er í fyrsta sinn síðan 1994 (Lenny Wilkens) sem Atlanta Hawks á besta þjálfara deildarinnar.

Atlanta Hawks er komið í 1-0 á móti Brooklyn Nets í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en leikur tvö er síðan annað kvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×