Golf

Bubba Watson í kunnuglegri stöðu á Masters

Watson hefur spilað frábært golf hingað til á Augusta.
Watson hefur spilað frábært golf hingað til á Augusta. AP/Getty
Bubba Watson leiðir Mastersmótið eftir tvo hringi en þessi litríki kylfingur fór á kostum á öðrum hring í gær og kom sér í þriggja högga forystu með því að spila á 68 höggum eða fjórum undir pari. Watson er samtals á sjö höggum undir pari en hann fékk meðal annars fimm fugla í röð á fyrri níu holunum í gær við mikinn fögnuð sinna dyggu aðdáenda sem fylgja honum hvert fótspor á Augusta. Hann sigraði mótið á eftirminnilegan hátt árið 2012 en síðan þá hefur gengi þessa skemmtilega kylfings ekki verið mjög gott.

Í öðru sæti er Ástralinn John Senden og er hann á fjórum höggum undir pari en jafnir í þriðja sæti eru Jonas Blixt, Thomas Bjorn, Jordan Spieth og sigurvegarinn frá því í fyrra, Adam Scott. Þá hefur frammistaða hins 54 ára gamla Fred Couples vakið athygli en hann deilir sjöunda sæti með Jim Furyk og Jimmy Walker á tveimur höggum undir pari.

Rory McIlroy þótti sigurstranglegur fyrir mótið en hann hefur alls ekki fundið sig og er á fjórum höggum yfir pari. Hann setti niður rúmlega tveggja metra pútt fyrir pari á 18. holu til þess að komast í gegn um niðurskurðinn sem er þó meira en mörg önnur stór nöfn geta sagt sem Augusta hefur leikið grátt undanfarna daga. Meðal þeirra sem ekki náðu niðurskurðinum eru Phil Mickelson, Sergio Garcia, Luke Donald, Webb Simpson, Graeme McDowell, Ernie Els og Dustin Johnson.

Bein útsending frá þriðja hring hefst á Golfstöðinni klukkan 18:40 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×