Innlent

Búast við auknu álagi á Leifsstöð vegna flóttamannastraumsins

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
„Það liggur í hlutarins eðli að aukið vinnuálag kallar á aukinn  mannafla,“ segir Ólafur Helgi.
„Það liggur í hlutarins eðli að aukið vinnuálag kallar á aukinn mannafla,“ segir Ólafur Helgi. vísir/andri marinó
Búast má við auknu álagi á landamæravörslu á Keflavíkurflugvelli vegna fjölgunar hælisleitenda hér á landi, samkvæmt nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra. Gert er ráð fyrir að þessi mikla fjölgun muni gera starfsfólki lögreglu erfiðara að halda uppi hefðbundnu eftirliti og þjónustu. Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir margt þurfa að breytast.

Ólafur Helgi óskaði eftir því við ríkislögreglustjóra að unnin yrði skýrsla um áhættumat og greiningu á því við hverju mætti búast varðandi frekari þróun vegna mögulega breyttrar stöðu á landamærum Íslands á næstu mánuðum.

Helstu niðurstöður skýrslunnar  voru þær að líkur væru á að hælisleitendum myndi fara fjölgandi hér á landi næstu tólf mánuði, og því megi búast við auknu álagi á Keflavíkurflugvelli. Ólafur Helgi segir lögregluna eiga sífellt erfiðara með að halda uppi hefðbundnu eftirliti.

„Ef við tölum um tvennt; annars vegar húsnæði þá er það einfaldlega að springa. Þó það sé stöðugt verið að auka við þá er búist við að farþegafjöldinn í ár verði 4,9 milljónir en hann var 3,9 milljónir í fyrra. Svo er búist við að það muni enn aukast á næsta ári. Þannig að húsnæðismálin eru eitt en síðan með stöðugt auknum farþegafjölda þarf meiri mannskap,“ segir hann.

Bent er á í skýrslunni að minni aðgerðargeta hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli geti haft áhrif á fjölda verkefna hjá öðrum lögregluliðum. Ólafur fullyrðir að aldrei hafi eins mikið álag verið á lögreglunni á Suðurnesjum og nú. Því sé mikil þörf á auknu fjármagni og frekari mannskap.

„Það liggur í hlutarins eðli að aukið vinnuálag kallar á aukinn  mannafla. Ég held það sé ekki rétt hjá mér að nefna neinar tölur að svo stöddu en við höfum nýlega tekið upp sólarhringsvakt á landamæragæsluna því það er verið að fljúga orðið allan sólarhringinn. Það er ljóst að við höfum engan varamannskap og þyrftum að bæta við,” útskýrir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×