Innlent

Búast má við snörpum vindhviðum við fjöll á Norðvesturlandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Vindaspá Veðurstofu Íslands fyrir klukkan 16 í dag.
Vindaspá Veðurstofu Íslands fyrir klukkan 16 í dag. Vísir/Vedur.is
Búast má við snörpum vindhviðum fram eftir morgni við fjöll á Norðvesturlandi og við norðan- og austanverðan Tröllaskaga, að því er fram kemur í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Þar kemur jafn framt fram að síðdegis á morgun muni gera allhvassa  austlæga átt með snjókomu á fjallvegum, fyrst um landið sunnanvert, en norðantil annað kvöld.

Gengur síðan í norðaustan storm með hríð á Vestfjörðum seint annað kvöld og víðar um norðanvert landið aðfaranótt mánudags.

Horfur næsta sólarhringinn á landinu öllu:

Sunnan 10-15 m/s, en 15-23 í vindstrengjum á miðhálendinu og Tröllaskaga fram eftir morgni. Rigning eða súld, en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hiti 2 til 7 stig. Víða hægari vindur og úrkomuminna kringum hádegi. Gengur í suðvestan 10-18 seint í dag með éljum eða slydduéljum, einkum um landið vestanvert. Kólnar smám saman í veðri.

Skaplegt veður framan af morgundegi með dálítilli úrkomu. Gengur í allhvassa austlæga átt síðdegis með slyddu eða snjókomu og síðar rigningu sunnanlands og hlýnar. Norðaustan 18-23 og snjókoma á Vestfjörðum seint annað kvöld.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag:

Norðan 15-23 og snjókoma, talsverð norðaustanlands. Úrkomulítið á sunnanverðu landinu. Dregur úr vindi og úrkomu vestantil seinnipartinn. Frost 0 til 4 stig, en frostlaust við suðurströndina fram eftir degi.

Á þriðjudag:

Norðlæg átt 3-10, en 10-15 með austurströndinni. Dálítil él norðantil, annars þurrt. Líkur á snjókomu syðst um kvöldið. Frost 1 til 10 stig.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Útlit fyrir norðanátt með éljum, einkum á norðanverðu landinu. Kalt í veðri.

Á föstudag:

Austlæg átt og snjókoma með köflum sunnanlands, en hægviðri, léttskýjað og talsvert frost norðantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×