Viðskipti innlent

Búast má við að vara frá Sviss hækki í verði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Búast má við því að verð á svissneskum lúxusvarningi á Íslandi og annars staðar í Evrópu hækki í kjölfar styrkingar frankans.
Búast má við því að verð á svissneskum lúxusvarningi á Íslandi og annars staðar í Evrópu hækki í kjölfar styrkingar frankans. Nordicphotos/afp
Svissneskur franki er 25 krónum dýrari en hann var á miðvikudag í síðustu viku. Ástæðan er sú að svissneski seðlabankinn ákvað að hætta að halda gjaldmiðlinum stöðugum gagnvart evru og rauk gengi frankans upp í kjölfarið. Seðlabanki Íslands hefur hins vegar reynt að halda íslensku krónunni stöðugri gagnvart evru.

Víða í Evrópu hefur hækkun frankans mikil áhrif á efnahagslíf. BBC greindi frá því í fyrradag að um 566 þúsund Pólverjar hefðu tekið lán í svissneskum frönkum. Það væri um 37 prósent allra húsnæðislána þar. Íbúar margra fleiri ríkja hafa tekið lán í svissneskum franka, þar á meðal Ungverjar, Króatar og Austurríkismenn.

Áhrifin kunna að hafa einhver áhrif á íslenskt efnahagslíf. Í svari frá Seðlabankanum kemur fram að þrjú prósent af heildarlánum frá erlendum aðilum, þar með talin bein lán og skuldabréfaútgáfur, eru í svissneskum frönkum. Þá segir jafnframt að hræringar á erlendum mörkuðum vegna svissneska frankans hafi ekki teljandi bein áhrif á efnahag Seðlabanka Íslands.

„Sá órói sem verið hefur nú í upphafi árs á erlendum mörkuðum gæti hins vegar haft áhrif á þau kjör sem innlendum aðilum bjóðast á erlendum mörkuðum,“ segir í svari Seðlabankans.

Það kann að vera að gengisbreytingin hafi bein áhrif á efnahagsreikning einhverra fjármálastofnana. Til að mynda nemur skuld fjármálafyrirtækisins Lýsingar umfram eign í svissneskum frönkum um 1.133 milljónum króna. Þór Jónsson, upplýsingafulltrúi Lýsingar, bendir þó á að eigið fé Lýsingar sé rúmir tíu milljarðar króna.

Í svari Landsbankans við fyrirspurn Fréttablaðsins er vísað í níu mánaða uppgjör bankans á árinu 2014 þar sem fram kemur að eignir bankans umfram skuldir í svissneskum frönkum samsvara 354 milljónum króna.

„Þetta er sumsé lág upphæð og hefur óveruleg áhrif þótt hún breytist eitthvað,“ segir Kristján Kristjánsson upplýsingafulltrúi í svarinu. Eign Íslandsbanka í frönkum umfram skuld nam 485 milljónum í lok september í fyrra og hjá Arion banka voru það 97 milljónir.

Þrjú prósent af heildarutanríkisviðskiptum Íslendinga eru í frönkum og gengisbreytingin kann að hafa einhver áhrif á innflutning ýmissa vara frá Sviss. Nærtækast er að nefna innflutning á lúxusvarningi eins og vönduðum úrum.

„Í hverjum mánuði er ég að kaupa eitthvað inn,“ segir Frank Ú. Michelsen hjá Michelsen úrsmiðum á Laugavegi. Hann segir að hugsanlega muni því verð á varahlutum hækka eitthvað. Hann bíði þó með hækkanir í lengstu lög.

Frank segir að núna sé aðalmálið að bíða eftir viðbrögðum Seðlabanka Evrópu og hvernig málin þróist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×