Viðskipti innlent

Brýnt að berjast gegn því að gengi krónunnar rísi of mikið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hannes Sigurðsson segir mikilvægasta kosningamálið vera að halda efnahagslegum stöðugleika.
Hannes Sigurðsson segir mikilvægasta kosningamálið vera að halda efnahagslegum stöðugleika. Fréttablaðið/Hanna
Hannes G. Sigurðsson hefur starfað hjá Samtökum atvinnulífsins, og forveranum, Vinnuveitendasambandi Íslands, frá 1986, eða í 30 ár. Hann hefur verið aðstoðarframkvæmdastjóri síðustu ár, en tók tímabundið við stöðu framkvæmdastjóra þegar Þorsteinn Víglundsson sneri sér að öðrum verkefnum í síðustu viku.

Hannes sér því núna um verkefni er lúta að samskiptum við fjölmiðla, tengingu skrifstofunnar við stjórn og mál sem lúta að rekstri skrifstofunnar.

Hannes segir að Samtök atvinnulífsins séu um þessar mundir að vinna að ýmsum verkefnum varðandi heilbrigðismál, ferðaþjónustu og fleira. Fram undan séu kynningar á þessum verkefnum.

„Við viljum líka leggja áherslu á okkar mál í aðdraganda kosningabaráttunnar. Síðan erum við náttúrlega í samskiptum við verkalýðshreyfinguna um ýmis mál sem fara ekkert frá okkur,“ segir Hannes um þau verkefni sem blasa við starfsmönnum skrifstofu SA þessa dagana.

Hannes segir að Samtök atvinnulífsins hafi yfirleitt í aðdraganda kosninga staðið fyrir fundi þar sem vakin er athygli á þörfum atvinnulífsins fyrir gott rekstrarumhverfi og skattaumhverfi. „Ég býst við að við munum halda svoleiðis fund þó að hann hafi ekki verið dagsettur,“ segir Hannes.

Hann segir það vera sína skoðun að brýnasta kosningamálið sé stöðugleiki í efnahagsmálum og að menn komi sér saman um peningamálastefnu sem leiði ekki til þess að gengi krónunnar ofrísi, eins og hefur verið í uppsiglingu. „Þannig að efnahagslegur stöðugleiki er aðalhagsmunamál atvinnulífsins og þar leika peningamál, ríkisfjármál og fjármál sveitarfélaga stóra rullu,“ segir Hannes og bætir því við að menntamál skipti líka máli.

Staða framkvæmdastjóra SA var auglýst laus til umsóknar í dagblöðunum um helgina, en Hannes býst ekki við að sækja um. Hann býst því ekki við að gegna stöðunni lengi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×