Innlent

Bryndís felur ASÍ að hafa umsjón yfir matarskattshópnum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Bryndís Loftsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Loftsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Loftsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að fela ASÍ umsjón yfir Faceboohóp sem hefur það að markmiði að berjast fyrir því að 7 prósenta virðisaukaskattur á matvæli verði áfram.

Þetta staðfestir hún í færslu sinni á síðu hópsins.

„Við höfum þegar sýnt fram á hversu margir hafa áhyggjur af þessari fyrirhuguðu skattabreytinga og að þörf er á betri útlistun frá hendi ráðuneytisins um áhrif hennar á kjör fólks í mismunandi tekjuhópum og fjölskyldustærðum. Ég leitaði til ASÍ um að taka síðuna yfir áður en Brynjar Níelsson gerði athugasemdir við aðkomu mína að henni, hans orð hafa engin áhrif á mig eða skoðanir mínar.“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gagnrýnt Bryndísi töluvert fyrir að berjast gegn frumvarpi flokksins opinberlega.

„Að stjórnarliðar berjist gegn meginmarkmiðum frumvarpsins opinberlega og ganga svo langt að stofna til félagsskapar í þeim tilgangi er mjög sérkennilegt. Slíkir liðsmenn eru ekki hátt skrifaðir hjá mér og ættu kannski íhuga að fara í annað lið,“ skrifaði Brynjar í færslu á Facebook.

„Mér þótti einfaldlega augljóst að svona hópur væri best kominn í höndum óflokksbundinna samtaka launafólks í landinu og að þeir væru betur til þess fallnir að miðla upplýsingum um málið til almennings. Ég þakka ykkur stuðninginn og allar góðu línurnar sem ég hef fengið í vikunni og hvet alla til þess að muna að því miður eru hér á landi margir sem lifa við kröpp kjör og leyfa sér lítinn munað umfram afborganir af húsnæði og mat. Hækkun barnabóta gagnast aðeins hluta þess hóps. Áfram veginn í átt að góðu samfélagi fyrir alla.“

Bryndís hefur bent á að í frumvarpinu væri gert ráð fyrir að fjögurra manna fjölskylda eyddi 988 þúsund krónum á ári í mat og drykk. Hins vegar telur hún sig eyða tæpum tveimur milljónum í mat og drykk en Bryndís og maður hennar eiga þrjú börn á aldrinum 6-11 ára.


Tengdar fréttir

Ríkið segir 250 krónur duga fyrir máltíðinni

Gert er ráð fyrir að það kosti 745 krónur að fæða hvern einstakling á dag. Fjögurra manna fjölskylda verji 92 þúsund krónum í mat og drykk á mánuði. Þetta eru þær tölur sem liggja til grundvallar í frumvarpi um breytingar á virðisaukaskatti.

Bryndís óvinsæl innan Sjálfstæðisflokksins

Brynjar Níelsson veltir því upp hvort Bryndís Loftsdóttir varaþingmaður ætti kannski að segja sig úr flokknum. Sjálfstæðismenn hugsa Bryndísi þegjandi þörfina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×