Innlent

Brutust inn og vöskuðu upp úr skírnarskálinni

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ragnheiður Pálsdóttir tók þessar myndir af verksummerkjum óboðnu gestanna.
Ragnheiður Pálsdóttir tók þessar myndir af verksummerkjum óboðnu gestanna.
Nýverið var brotist inn í Staðarhólskirkju í Saurbæ í Dalabyggð. Ragnheiður Pálsdóttir bóndi í Hvítadal í Saurbæ greinir frá þessu á Facebook síðu sinni en hún er einn sóknarnefndarmanna og staðarhaldara Staðarhólskirkju í Saurbæ. Greint er frá málinu á vefnum Búðardalur.is en Ragnheiður segir að ekki sé vitað hverjir brutust inn í kirkjuna en þeir sem þarna voru á ferð hafa greinilega gramsað í flest öllu sem hægt var, og sóðað út gólfteppið.

Þá skildu gestirnir óboðnu dyrnar á kirkjunni eftir opnar eftir innbrotið og blöktu þær í rokinu þegar komið var að. Annar bóndi á svæðinu, Hugrún Reynisdóttir, fjallar einnig um málið á sinni Facebook síðu og segir hún líklegt að þeir sem hafi brotist inn í kirkjuna hafi borðað þar, sofið, kveikt á kertum, spilað á orgelið og líklega vaskað upp uppúr skírnarskálinni.

Þá er óskað eftir því að ef einhverjir hafi orðið varir við grunsamlegar mannaferðir við kirkjuna síðustu daga eða geti gefið einhverjar upplýsingar um málið setji sig í samband við Lögregluna í Borgarfirði og Dölum í síma 444 0300.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×